145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[13:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það liggur nú fyrir að kjördagur er fastsettur 29. október og þá lýkur þessi þingi innan tíðar. Það mun verða snörp og vonandi hress, málefnaleg kosningabarátta sem fram fer næstu vikur. Þar munu skýrast línur á milli flokka sem bjóða fram vegna þess að alveg sama hversu oft við tölum um að samvinna sé góð og samráð sé gott þá ríkir hugmyndafræðilegur ágreiningur í pólitík og hann setja menn ekki svo glatt til hliðar. Menn standa á sínu en geta samið út af borði einhverja þætti sem flokkar geta ekki komið sér saman um. Við erum í pólitík og við göngum til kosninga til þess að laða fólk að þeim flokkum og þeim áherslum og hugmyndafræði sem við stöndum fyrir. Þannig verður kosningabaráttan. Þannig á kosningabaráttan að vera, skýr skilaboð til kjósenda um hvað flokkarnir standa fyrir og þeir sem skipa þá lista. Það verður kjósandinn að velja, við þetta venjulega fólk í þessu landi vegna þess að við sem hér sitjum erum líka kjósendur. Við munum síðan ganga að kjörborðinu og senda skýr skilaboð til flokkanna um það hverjir eigi að fá umboð til áframhaldandi stjórnarsetu eða hvernig við greiðum atkvæði. Venjan er sú að þeir sem annað tveggja hafa unnið stærstan kosningasigur eða eru stærsti flokkurinn fá umboð forseta til stjórnarmyndunar. Virðum rétt kjósenda til að kjósa, til að velja á milli hugmyndafræðinnar og líka til þess að fá að segja sitt um menn og málefni í aðdraganda kosninga án þess að við stjórnmálamenn hlaupum upp til handa og fóta og köllum aðra heldur en þá sem eru sammála okkur, ég nota bara svona þægilegt orð, kjána eða einhvern sem ekkert veit, vegna þess að fólkið í landinu veit hvað það vill.

Ég fagna þessari niðurstöðu, virðulegur forseti. Ég veit að minn flokkur gengur hnarreistur til kosninga. Ég hlakka til að vera á hliðarlínunni og fylgjast með.