145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér eru núna á síðustu dögum þessa þings, miðað við starfsáætlun hæstv. forseta, stór mál til umræðu. Þar er auðvitað það sem kom í gær, lífeyrisréttindamálið, kannski það stærsta, þar sem þau tíðindi hafa gerst að verkalýðsfélög, ríki og sveitarfélög, hafa komist að samkomulagi, og það rammast innan svokallaðs SALEK-samkomulags sem gildir til 2018, að breyta þeim kerfum sem við þekkjum hvað varðar lífeyrisréttindi því að við sjáum og höfum séð lengi að kerfin standa ekki undir sér. Þar ber kannski hæst að það er um 90 milljarða innspýting í kerfið frá ríkinu. Mér þykir þetta mjög athyglisvert og er áfram um að við lögum þessi kerfi svo við geymum ekki vandann fyrir síðari kynslóðir. En mig langar auðvitað að vita hvort hér sé um að ræða, afsakið að ég sletti, „bail out“ í eitt skipti. Eða erum við að fara að takast á við sama vanda eftir kannski 20 ár? Ég þarf að fá að vita hvort við séum að laga og breyta kerfum almennilega svo við séum ekki sífellt að sitja í súpunni og kljást við sama hlutinn eftir nokkur ár. Okkur þingmönnum var auðvitað falin hér ábyrgð meðan á kjörtímabilinu stendur, að fást við mál. Til þess höfum við tíma. Hér var að koma fram þingrofstillaga um kosningar 29. október. Þangað til eru sex vikur. Við skulum kafa ofan í þetta mál eins og við getum (Forseti hringir.) þangað til, til að reyna að ná um það ásættanlegri lausn.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna