145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Til umræðu í hv. velferðarnefnd þessa dagana er frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar þar sem stefnt er að því að einfalda bótakerfið, breyta lífeyristökualdri og fleira. Þetta er hið áhugaverðasta mál. Ég hef margoft komið hér í pontu og sagt að eitt helsta verkefnið gagnvart almannatryggingum sé að einfalda kerfið því að það sé svo flókið að fólk skilji illa réttarstöðu sína. Ég hef haldið þá ræðu nógu oft til þess að þurfa ekki að endurtaka hana hér. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og hef þess vegna ekki áhrif á hvort málið komist út úr nefnd en ég gæti alveg ímyndað mér að það færi ekkert þaðan út fyrir þinglok. Maður veit þó aldrei hvernig fer hér á bæ, það er bara eins og það er. Mér finnst samt nauðsynlegt að tala um þetta hér og nú.

Við að skoða þetta mál rennur upp fyrir mér að það er ekki hægt að einfalda kerfið eitt og sér án þess að það komi niður á einhverjum. Þegar ég hef verið spurður að því hversu mikla peninga ég vilji setja í kerfið hef ég svarað: Fyrst þarf að einfalda kerfið. Við að skoða þetta mál hef ég þó komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að gera hvort tveggja í einu. Þegar við einföldum kerfið verðum við að gera það með þeim hætti að það komi sem allra minnst niður á notendum kerfisins vegna þess að notendur kerfisins þurfa að upplifa það sem svo að einfaldanir á kerfinu séu góðar. Það eru vond skilaboð til notenda ef einfaldanir á kerfinu, sem eru nauðsynlegar og í eðli sínu jákvæðar, koma niður á notendunum sjálfum. Þá finnst þeim þessar einfaldanir vera fúkyrði gagnvart sér. Það er afskaplega neikvætt. Þegar við stefnum að einföldunum í almannatryggingakerfinu verðum við t.d. að láta fylgja með hækkanir á bótum eða eitthvað því um líkt, eða lífeyri, eða hvað svo sem um ræðir hverju sinni.

Ég hygg að það sé mikilvægt þegar fram líður og ég veit að jafnvel svona kerfisbreytingum fylgir alltaf kostnaður. Kannski eru það slæmar fréttir en ég held að það þurfi að gera fleiri.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna