145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að þau stóru mál sem komið hafa hér inn, þó að þau komi inn á síðustu metrum þessa þings, skipta máli. Hér er í velferðarnefnd til umfjöllunar breyting á almannatryggingakerfinu sem snýr að lífeyrisþegum, ellilífeyrisþegum, sveigjanlegum starfslokum o.s.frv. Það er svolítið sérkennilegt að standa hér og hlusta á vinstri menn sem telja að þetta megi bíða. Ég velti fyrir mér hvort geti virkilega verið að þeir séu svo spældir vegna þess að þeir hafi ekki sjálfir komið í gegn á þeim árum sem þeir hafa verið í félagsmálaráðuneytinu breytingum á almannatryggingakerfinu. Það er líka þannig að þegar liggur fyrir samkomulag á milli stórra stéttarfélaga um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, að fella niður ríkisábyrgð á opinbera kerfinu og samræma í eitt lífeyrissjóðakerfi, þá rísa vinstri menn upp á afturlappirnar og segja: Það er ekki hægt að klára þetta, þetta kemur svo seint inn og við þurfum þetta (ÖS: Hvaða vinstri menn eru þetta?) og við þurfum hitt.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr: Hvaða vinstri menn? Það voru menn hér í pontu sem ræddu um þetta áðan, hv. þingmaður.

Mér er efs að málefnin sjálf skipti í raun og veru máli heldur sé það pínu sárt að á kjörtímabilinu skuli ríkisstjórninni undir forustu þessara flokka hafa tekist að koma þessum málum áleiðis. Það er líka sárt fyrir vinstri menn að sjá breytingar á LÍN sem eru í sátt við flest stúdentafélög og þá standa vinstri flokkarnir hér á þingi upp og segja: Nei, kemur ekki til greina að afgreiða þetta mál.(Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Það virðist vera að svona kerfisbreytingar séu í óþökk (Forseti hringir.) vinstri manna en einhverjar aðrar kerfisbreytingar séu í þeirra þágu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna