145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:38]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum öll sammála um að sjálfstæði og fagmennska fjölmiðla er ómetanlegur styrkur í lýðræðissamfélagi. Þess vegna er mikilvægt að skapa fjölmiðlum heilbrigð samkeppnisskilyrði og eðlileg starfsskilyrði, ekki síst á markaði. En sá misskilningur hefur vaðið uppi, finnst mér, hjá hægri öflunum á Íslandi að heilbrigt fjölmiðlaumhverfi geti falist í því meðal annars og ekki síst að veikja Ríkisútvarpið. Þess vegna hefur Ríkisútvarpið mátt sæta pólitískri aðför í formi opinberrar umræðu og jafnvel ritstjórnarviðleitni ráðandi afla en líka í formi þess hvernig opinberu fjárveitingavaldi hefur verið beitt gagnvart stofnuninni. Þegar Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi á sínum tíma var það skilið eftir með níðþungar lífeyrisskuldbindingar sem allir vita að eru að sliga rekstur þess. Fyrr á árinu var gerður þjónustusamningur við stofnunina. Það var samningur um skerta þjónustu sem í besta falli heldur í horfinu eftir langvarandi fjársvelti og andstreymi en felur ekki í sér úrbætur eða framför. Þetta er viðurkennt. Veruleikinn sýnir því fram á misræmi milli þess lýðræðis- og menningarhlutverks sem Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna annars vegar og hins vegar þeirra skilyrða sem stjórnvöld skapa stofnuninni til þess að rísa undir hlutverki sínu. Ég nefni þetta vegna þess að slíkar starfsaðstæður fjölmiðils í almannaþágu og almannaeigu skapa ekki jafnvægi á fjölmiðlamarkaði, hvorki faglegt né rekstrarlegt jafnvægi. Stóra verkefnið er auðvitað að bregðast við breyttum heimi og móta fumlausa stefnu (Forseti hringir.) um málaflokkinn. Framtíðarsýn og stefnumótun varðandi hlutverk Ríkisútvarpsins og hvernig að því er búið er liður í þeirri framtíðarsýn.