145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:40]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á þakka fyrir umræðuna, þetta er að sjálfsögðu mikilvægt umræðuefni sem við förum yfir hér. Mig langar kannski að einblína svolítið á seinni hlutann í málflutningi hv. þm. Helga Hjörvars. Ég tel ekki úr vegi að leggja megi meiri áherslu á menningarumfjöllun í fjölmiðlum. Það er okkur öllum hollt að upphefja íslenska menningu og þá grósku sem er í henni; ný tækifæri, nýir listamenn, líka minningar úr fyrri menningu. Það sýnir sig að landinn hefur áhuga á þeim breytingum sem hafa orðið á menningunni í gegnum tíðina, t.d. eru núna einir vinsælustu þættirnir á RÚV örþættir sem sýna brot úr sjónvarpsefni á hverju ári síðastliðin 50 ár. Það hefur mælst hvað vinsælast síðustu vikur.

Svo þegar við tölum um þýðingarskylduna eru mörg tungumál sem eiga á hættu að deyja út. Með innlendu sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum tel ég að fylgi ákveðin ábyrgð, m.a. sú að halda tungumálinu á lofti. Við getum talað um íslensk leikrit, stuttmyndir, sjónvarpsleikrit, íslenska þætti, útsendingar frá menningarviðburðum o.fl. Börn á Íslandi eru sum hver búin að týna niður íslenskum orðum yfir ákveðna hluti og taka í staðinn upp ensk orð sem þau fá m.a. með því að nota tæknina í dag, að horfa á sjónvarpið eða lesa bækur. Með þessu vil ég alls ekki gera lítið úr erlendum tungumálum og mikilvægi þess að hafa tök á þeim, en í mínum augum er eitt af hlutverkum íslenskra fjölmiðla að styðja við íslenska tungu.

Þar sem komið var inn á fjölmiðlalögin tel ég að til þess að halda utan um hlutverk fjölmiðla og það umhverfi sem þeir búa við, sem breytist mjög hratt, ætti helst að uppfæra eða alla vega endurbæta lögin þar að lútandi nær árlega, a.m.k. annað hvert ár, og láta ekki líða of langan tíma á milli. Við sjáum bara þær tækniframfarir sem hafa komið fram á síðustu fimm árum, hvað þær breyta gífurlega miklu í umhverfi fjölmiðlanna á Íslandi.