145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem er þörf. Mér heyrist við öll vera sammála um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar og því hlutverki sem hún hefur, bæði að upplýsa almenning um það sem er að gerast og líka að standa vörð um íslenska menningu og mál o.fl.

Ég fagna því líka að hér sé strax talað um að lækkun skatta geti verið ein af lausnunum. Ég hef alltaf verið mjög svag fyrir því að lækka skattana og legg til að við reynum að lækka þá almennt þannig að atvinnulífi almennt í landinu vegni betur og reksturinn gangi betur. Ég tel að það eigi að vera þannig. Það er líka annað sem margar aðrar greinar í atvinnulífinu gætu haft gott af, að hið opinbera væri ekki í samkeppni við þær, eins og á auglýsingamarkaði, sem við þurfum að kanna. Það er vont að fjölmiðlar þurfi að hafa umfjöllun sína þannig að þeir fái t.d. sem flestar flettingar til að eiga auðveldara með að selja auglýsingar og annað slíkt. Það er ekki gott að fjölmiðlun sé undir því komin þannig að hún þurfi að hafa góðan aðgang að auglýsingamarkaðnum.

Tækniframfarirnar hafa vissulega áhrif eins og komið hefur verið inn á hérna, en þær hafa líka þau áhrif að það er auðveldara að miðla efninu. Það er mun auðveldara fyrir fjölmiðla að koma efni sínu á framfæri í dag og sá kostnaður er mun minni. Við þurfum að horfa til þess. Ég hef alltaf verið hlynntur því að nýta samkeppnissjóði til að koma að svona málum þannig að við skilgreinum hvað það er nákvæmlega sem við teljum upp á vanta og að þeir sem geta sinnt því sem best fái þá úthlutað úr samkeppnissjóðum. Ég legg til að það sé ein af þeim leiðum sem skoðaðar verða í þessu mikilvæga máli.