145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það stefnir í að við göngum til alþingiskosninga í næsta mánuði vegna þess að með samstilltu átaki og umfjöllun frjáls miðils og ríkissjónvarpsins voru bornar á borð fyrir almenning upplýsingar sem leiddu til svo mikillar reiðiöldu í samfélaginu að stjórnvöldum varð ljóst að ekki væri hægt að gera neitt annað en að boða til kosninga. Hrökklast frá. Þetta sýnir okkur auðvitað hversu miklu hlutverki fjölmiðlar, bæði frjálsir og opinberir, geta þjónað þegar kemur að almannaþjónustu. Samskipti stjórnvalda og Ríkisútvarpsins hafa ekki verið góð á þessu kjörtímabili. Það hefur mikið verið bölsótast út í Ríkisútvarpið. Mér finnst ekki trúverðugt þegar atburðarásin er eins og hún hefur verið og var í vor að á sama tíma fari stjórnvöld í einhvers konar samstarf og fundi með frjálsum fjölmiðlum um veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, eins og þessi umræða hefur tilhneigingu til að leiðast út í í hvert skipti. Það er gríðarlega mikilvægt að Ríkisútvarpinu sé tryggt fjármagn til að sinna sínu almannaþjónustuhlutverki, bæði í fréttaflutningi og til að endurspegla og spegla samfélagið eins og gert er í dagskrárgerð. Það er á sama tíma hlutverk stjórnmálamanna, að mínu mati, að tryggja að eðlilegt samkeppnisumhverfi sé fyrir frjálsa fjölmiðla. Á sama tíma verður maður að segja: Þeim sem hafa stofnað frjálsa fjölmiðla á Íslandi undanfarin 30 ár og meira en það hefur verið fullkomlega ljóst að Ríkisútvarpið væri þar fyrir á fleti og hefði ákveðna fyrirferð á auglýsingamarkaði. Það er hluti af því samkeppnisumhverfi sem þessi fyrirtæki hafa farið sjálfviljug inn í. Þau þurfa að keppa á þeim vettvangi á sama hátt og allir aðrir fjölmiðlar, með efnistökum sínum og með því að sinna með raunverulegum og afgerandi hætti almannaþjónustuhlutverki sem finnst líka (Forseti hringir.) innan þessara frjálsu miðla.