145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[15:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að nú sé að koma að því að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég hef áður sagt það í umræðu um þetta mál og þennan samning að þetta er einhver merkilegasti mannréttindasamningur sem gerður hefur verið, vegna þess að eins öfugsnúið og það hljómar tryggir hann ekki fötluðu fólki ný réttindi í raun. Staða mála hefur einfaldlega verið þannig að í þeim mannréttindasáttmálum sem fyrir eru og eiga vitaskuld að ná til allra hefur raunin verið sú að mannréttindavörnin hefur þegar á reynir ekki náð til fatlaðs fólks. Þess vegna er þörf á þessum samningi og þess vegna eigum við auðvitað að fullgilda hann.

Það hefur dregist allt of lengi að Ísland kláraði þá vinnu sem byrjað var á árið 2007 þegar Ísland skrifaði undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk. Á vettvangi Alþingis hefur oft verið ýtt á eftir því að fullgildingin yrði kláruð. Bent hefur verið á að það þurfi að breyta lögum til þess að íslensk löggjöf uppfylli þennan samning og hefur vissulega verið unnið að ýmsum lagabreytingum, en sú vinna hefur gengið allt of hægt. Ég fagna þess vegna að nú sé ákveðið að fara fullgildingarleiðina þó svo að enn séu ýmis lög sem á eftir að laga og breyta. Ég held að það að fullgilda samninginn verði til þess að þeirri vinnu muni vinda hraðar fram.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögunni kom berlega í ljós vilji til að vinna málið hratt og til að ljúka því. Þá var jafnframt bent á að flutt hafi verið þingmannamál sem var nánast samhljóða þessu máli sem hv. velferðarnefnd hefur haft til umfjöllunar en það hafði ekki verið klárað. Það verður þess vegna ekki hjá því komist að maður velti því fyrir sér: af hverju er skyndilega þessi mikli velvilji til að klára málið núna á lokametrunum? Sá vilji hefur allan tímann verið til staðar hjá okkur í stjórnarandstöðunni. Því miður verð ég að segja að eins glöð og ég er yfir þessum áfanga þá læðist sú hugsun að mér að það sé vegna þess að hæstv. ríkisstjórn áttar sig á því þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks, sérstaklega þegar kemur að málefnum öryrkja, að hún hefur ekki gert neitt fyrir þann hóp.

Ekki er allt fatlað fólk öryrkjar, en hins vegar er stór hluti af hópnum, sem tilheyrir einnig hópnum öryrkjar, sem verður af ýmsum ástæðum að reiða sig á greiðslur úr almannatryggingakerfinu til að framfleyta sér, m.a. vegna þess að fólk fær ekki vinnu. Ég vona svo sannarlega að með fullgildingu samningsins verði breyting þar á. Samningurinn fjallar til að mynda um skuldbindingar sem snúa að aðgengi, að vinnustaðir séu aðgengilegir fötluðu fólki. Það er eitt af því sem þar er undir. Eins ánægð og ég er með að hér eigi að fullgilda samninginn finnst mér þetta varpa nokkrum skugga á að ekki hafi verið gert meira til að bæta kjör fatlaðs fólks á kjörtímabilinu.

Með fullgildingu á samningi sem þessum verður ekki gjörbreyting á einni nóttu á högum fatlaðs fólks í samfélaginu, alls ekki. Það verða áfram ýmsar hindranir sem gera það að verkum að fatlað fólk mun enn þá þurfa að berjast fyrir réttindum sínum, bættum hag og því miður einnig því að geta tekið þátt í samfélaginu sem fullgildir og virkir samfélagsþegnar.

Líkt og ég sagði í umræðu í gær um staðfestingu á Parísarsamningnum er vinnan í rauninni rétt að byrja. Það er tiltölulega auðvelt að skrifa undir samning, en síðan er öll vinnan sem á eftir kemur í rauninni sú erfiða. Það er svolítið svipað með Parísarsamninginn og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að hér erum við komin með vegvísinn að því sem við ætlum að gera en eigum samt enn þá eftir að koma því í lög og framfylgja samningnum þannig að öll hin fallegu orð þýði virkilega bætt mannréttindi fyrir fatlað fólk. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að við öll sem hér erum inni og allir aðrir í samfélaginu þekki þennan samning, tileinki sér hugmyndafræði hans til þess að allt sem við gerum, og að öll lög sem sett verða á Alþingi speglist í þessum samningi. Það er þannig sem við tryggjum að fatlað fólk sitji við sama borð og aðrir í þessu samfélagi þegar kemur að mannréttindum. Við verðum að komast út úr grúppuhugsuninni, þ.e. að við fjöllum um einhver almenn mál og svo tökum við málefni fatlaðs fólks út fyrir sviga og fjöllum um þau sér.

Bent hefur verið á að þegar kemur að loftslagsmálunum þurfum við að taka áætlanir eins og samgönguáætlun og rýna í hana með loftslagsgleraugum. Það má í rauninni nota alveg sömu rök hér og segja að þegar kemur að málum eins og samgönguáætlun þurfum við einnig að rýna slíkar áætlanir með þennan samning að leiðarljósi.

Í 9. gr. samningsins er fjallað sérstaklega um aðgengi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli.“

Hér er auðvitað verið að nefna miklu fleiri þætti en bara það sem snýr að samgöngum. Bæði vegna þess að þetta var nefnt í tengslum við Parísarsamninginn og einnig í ljósi þess að síðar í dag á að ræða samgönguáætlun finnst mér mikilvægt að setja það í þetta samhengi. Samgöngumál eru gríðarlega mikilvægt mál þegar kemur að samfélagsþátttöku. Það er til lítils að búa í aðgengilegu húsi og hafa jafnvel aðgengilegan vinnustað ef leiðin þar á milli er ekki aðgengileg. Þá er auðvitað tómt mál að tala um að fólk geti tekið þátt á vinnumarkaði. Það er heildarhugsunin að muna eftir því að fatlað fólk er eins og allt annað fólk þátttakendur í flóknu samfélagi. Við verðum alltaf í öllum málum að muna eftir því að við erum alls konar og höfum ólíkar þarfir. Það þarf að hafa það í huga og taka tillit í allri löggjöf og regluverki. Hér hef ég ekki einu sinni minnst á það sem snýr að sveitarfélögunum, en það gildir auðvitað það sama um þau, þetta gildir um allt samfélagið. Við verðum að tileinka okkur þennan hugsunarhátt.

Það hjálpaði til við vinnu og afgreiðslu hv. utanríkismálanefndar á málinu að hv. velferðarnefnd var búin að vinna að málinu, hún hafði fengið til sín gesti og skilaði skýrslu sem við í nefndinni gátum byggt starf okkar á. Mér finnst það mikilvægt sem fram kemur í skýrslu hv. velferðarnefndar að næsta skref sé að lögfesta samninginn. Hreyfing fatlaðs fólks hefur kallað eftir því. Ég held að það sé alveg klárlega það næsta sem við á Alþingi þurfum að skoða þó svo að fullgildingin sé mikilvægt skref á þeirri leið.

Nefndin ákvað að sameinast í nefndaráliti sínu um að taka þingsályktunartillöguna eins og hún kom frá utanríkisráðherra og leggja til að hún yrði samþykkt óbreytt. Eftir að við afgreiddum málið frá okkur kom breytingartillaga frá hv. þm. Páli Val Björnssyni þess efnis að einnig ætti að fullgilda valkvæðan viðauka við samninginn og undirrita hvort tveggja. Ég er því alveg fyllilega sammála. Auðvitað er best að gera það og mun ég styðja að við gerum það, ég teldi það vera bestu afgreiðsluna. Engu að síður, hvort sem það nær fram að ganga í þessari lotu eða hvort það verður það næsta sem þarf að gera þá lýsi ég því hér með yfir að ég tel að þetta þurfi líka að gera þó svo að ég viti ekki alveg hvort okkur tekst að gera það í þessari lotu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í það minnsta alveg gríðarlega mikilvægt að við förum í fullgildingu samningsins sjálfs því að það fleytir okkur talsvert langt fram á veginn.

Það var mjög fróðlegt að hlusta á ræðu hv. þm. Helga Hjörvars áðan þar sem hann lýsti aðdragandanum að því hvernig þessi valkvæða bókun varð til. Ég verð nú að viðurkenna að þó svo að ég þekki mjög vel til þessa samnings þekkti ég ekki hina pólitísku hlið málsins, hvernig málið hafði verið afgreitt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er auðvitað ekki hægt annað en að taka undir það að það er mjög skrýtið að ríkt land eins og Ísland treysti sér ekki til að ganga alla leið í þessu efni. Ég mundi því vilja að við freistuðum þess að fara alla leið í þessu máli núna, en ef ekki þá vitum við klárlega hvar næstu skref liggja. Líkt og ég sagði áðan tel ég að annað næsta skref ætti að vera að lögfesta samninginn og svo að sjálfsögðu að fara í þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru og reyndar er gerð ágætlega grein fyrir í athugasemdum með þingsályktunartillögunni. Þegar við verðum búin að fullgilda samninginn er nú eins gott að vanda þar til verka og passa að allar þær lagabreytingar sem þar verður farið í séu í samræmi við samninginn sem og öll önnur lög sem við á Alþingi munum samþykkja í framtíðinni.

Ég vil að lokum brýna hv. þingmenn til að kynna sér samninginn, tileinka sér hugmyndafræði hans og æfa sig í að beita honum og rýna öll þingmál með gleraugum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á nefinu. Þannig held ég að okkur muni vegna betur sem samfélagi. Það er mjög stór liður í að við getum búið hér til samfélag sem er virkilega fyrir alla þar sem allir geta tekið þátt burt séð frá líkamlegu eða andlegu atgervi og að við getum blómstrað í öllum okkar fjölbreytileika.