145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað um að fá að fara í andsvar áðan til að spyrja hv. þingmann hvort hann þekkti einhver rök gegn því að samþykkja einnig valkvæða viðaukann. Hv. þingmaður sagði þá að hann hefði heyrt að það væri einhver andstaða vegna embættismanna. Ég hafði hætt við að fara í andsvar vegna þess að hv. þingmaður kvaðst ekki þekkja þau rök. Ég hafði þá ekki neina spurningu. En svo fór ég að velta fyrir mér: Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að einhver sé á móti valkvæðum viðauka af þessu tagi? Ég var að hugsa hérna áðan, með þakklæti í huga, að þetta er óumdeilt mál. Það er óumdeilt að við eigum að fullgilda þennan samning. Hv. þingmenn úr öllum flokkum hafa kvartað mikið yfir að það hafi ekki verið gert nú þegar, fyrir utan auðvitað hagsmunaaðilana sjálfa. En ég man ekki til þess að einhver hafi sagst vera á móti því að fullgilda þennan samning. Ég hef aldrei heyrt neinn stinga upp á því, hvað þá að færa rök fyrir því. Það mundi vekja hjá mér mikla furðu ef einhver væri á móti fullgildingu samningsins. Ég mundi velta fyrir mér hvernig rök kæmu fram. Kostnaður? Tími? Er einhver löggjöf laumufarþegi eða hvað? Ég veit ekki hvað í ósköpunum það gæti verið sem fólk mundi setja sig upp á móti í samningnum. Svo er það hinn valkvæði viðauki, sem ég verð að vísu að viðurkenna að ég þekki bara af frásögn hv. þingmanns og þeim gögnum sem komu inn á Alþingi. Getur hv. þingmaður gert sér í hugarlund hvað gæti valdið andstöðu við valkvæða viðaukann sem ekki á við um samninginn sjálfan? Ég er bara svolítið forviða. Ég veit ekki einu sinni alveg að hverju ég á að spyrja. Ég er svolítið hissa. Hvað á maður að segja?