145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:06]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég veit það ekki en mig grunar það samt. Sumir eru hræddir við að þetta muni þýða miklar málsóknir og aukin útgjöld og kannski mikla vinnu fyrir embættismenn. Ég held að það sé nærtækasta skýringin. Árið 2012 var ákveðið af þáverandi ríkisstjórn að fara í þá vinnu að fullgilda samninginn og átti að klára það árið 2014. Við erum að gera það fyrst núna árið 2016. Hvers vegna? Hvað stendur í veginum fyrir því? Hvers vegna hefur þetta ekki verið gert? Ég velti því oft fyrir mér hvernig í ósköpunum það hefur tekið Ísland, eitt af auðugustu ríkjum heims, níu ár að fullgilda þennan samning. Hvað liggur að baki?

Ég segi eins og hv. þingmaður, ég velti því fyrir mér og veit ekki alveg hvers vegna fólk er á móti því að samþykkja þennan viðauka. Ég hef engin svör við því. Það er hægt að fabúlera fram og til baka um hvers vegna það er ekki gert, en maður má passa sig að vera ekki óábyrgur í tali. En ég held stundum að embættismannakerfið og kerfið okkar allt saman, stjórnsýslukerfið, þvælist fyrir þjóðþrifamálum. Ég vildi óska þess að ég hefði svar við þessari spurningu en ég hef það ekki. Ég er alveg jafn hissa og hv. þingmaður á því hvers vegna ekki var ákveðið að gera þetta strax. En eins og ég sagði í ræðustól áðan heyrði ég það frá einstaklingi sem er framarlega í réttindabaráttu fatlaðra að embættismannakerfið hefði ekki mælt með því að þetta væri gert. Það er það eina sem ég get svarað hv. þingmanni um hvers vegna viðaukinn er ekki samþykktur.