145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:10]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það eru bara fullkomin rök fyrir því. Það hafa engin önnur rök verið lögð fram sem réttlæta að gera þetta ekki. Það er bara þannig. Ég hef alla vega ekki séð þau og þau hafa ekki verið nefnd hér í neinni umræðu, þ.e. hvers vegna þetta er ekki gert. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það séu einmitt rökin fyrir því að við ættum að samþykkja þetta, ef það sem ég nefndi áðan er rétt, sem er náttúrlega ekki staðfest heldur bara orðrómur. Það er með ólíkindum að við skulum ekki vera búin að samþykkja þennan samning, fullgilda hann og lögfesta hann. Ég lít svo á að við séum öll hluti af sama líkamanum og eigum öll að njóta sömu réttinda burt séð frá því hver líkamleg staða okkar er.

Það var meðal annars það sem stóð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að vinna ætti að raunverulegu jafnrétti allra burt séð frá því hver staða fólks í samfélaginu væri. Þetta mun gera það. Fatlað fólk, sem berst fyrir þessum réttindum, leggur gríðarlega áherslu á að viðaukinn verði líka samþykktur. Hann veitir stjórnvöldum miklu betra aðhald og tryggir það að embættismenn og þeir sem fara með þessi mál í stjórnkerfinu vinni vinnuna sína og vandi sig. Ef við gerum það er ekkert að óttast. Við þurfum ekkert að óttast ef menn vinna vinnuna sína og gera þetta vel. En við eigum að sjá sóma okkar í því að samþykkja samninginn og bæta þessum valkvæða viðauka við og sýna að við viljum raunverulega að allir standi jafnir í þessu samfélagi. Það hefur ekki verið svo. Fatlað fólk hefur mátt þola gríðarlega kúgun, mismunun og ofbeldi hér á Íslandi sem og annars staðar áratugum saman. Það er löngu kominn tími til að því linni og að fatlað fólk hafi fullkomin réttindi á við alla aðra borgara í þessu landi.