145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir kom hér snöfurmannlega í ræðustól fyrr í dag og lýsti því yfir að af hennar hálfu væri engin fyrirstaða fyrir því að valkvæða bókunin yrði samþykk. Það væru einungis tæknilegir örðugleikar sem gerðu það að verkum að ekki væri hægt að gera það í dag. En hún lýsti fullum og ótvíræðum stuðningi við það.

Annar þingmaður, hv. þm. Willum Þór Þórsson, talaði hér með þeim hætti áðan að ég gat ekki skilið betur að en hann, þingmaður Framsóknarflokksins, væri nákvæmlega þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, að hann vildi styðja valkvæðu bókunina til framkvæmdar og framgangs.

Þá finnst mér að við séum komin í stöðu sem hægt er að leysa. Það liggur fyrir að allir sem tekið hafa til máls eru ekki bara stuðningsfólk samningsins um réttindi fatlaðra heldur eru þeir líka þess fýsandi að valkvæða bókunin verði einnig fullgilt. Það eru ákveðin tæknileg úrlausnarefni, segir formaður utanríkismálanefndar. Gott og vel. Þá leysum við það með þeirri aðferð sem við erum að ræða. Við fullgildum samninginn um réttindi fatlaðra. Við samþykkjum breytingartillögu hv. þm. Páls Vals Björnssonar um að við gerum það líka gagnvart valkvæðu bókuninni en skjótum hins vegar fullgildingunni inn í framtíðina, t.d. 1. janúar 2017, eða „eins fljótt og auðið verður“. Þá fær embættismannakerfið allan þann tíma sem það þarf til að undirbúa fullgildingu bókunarinnar, en þingið hefur fyrir sitt leyti afgreitt málið og er búið að gefa skýr fyrirmæli um vilja sinn. Málið er leyst.