145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég man þessa sögu rétt var barnasáttmálinn lögfestur eftir fullgildingu, einhverjum árum eftir fullgildingu var hann tekinn upp sem lög. En í tilviki mannréttindasáttmálans kann ég nú ekki alveg forsöguna, hvort hann var hreinlega innleiddur strax með þeim hætti og gerður að lögum og varð hluti af lagasafninu. Þá varð hver einasta grein hans sem slík hluti af íslenska lagasafninu. Það var bara gert með venjubundnum hætti eins og þegar lög eru sett, það ég best veit, með því að samningurinn kom í raun inn sem frumvarp og var lögtekinn.

Það er kannski flókið mál fyrir okkur leikmennina sem ekki eru löglærðir að útlista í smáatriðum hver munurinn á þessu er, en hann er til staðar, það hef ég algerlega sannfærst um eftir að hafa spurt lögfræðinga út úr um þetta mál. Lögfræðingar viðurkenna það sem koma að borðinu hinum megin og eru í þeirri stöðu að eiga að veita fötluðum þjónustu eða tryggja þeim réttindin t.d. frá sveitarfélögunum. Þeir eru þeirrar skoðunar að það breyti málinu að samningurinn sem slíkur sé lögfestur. Ég trúi því.

Á mannréttindasáttmálann hefur náttúrlega reynt gríðarlega mikið og Ísland hefur aftur og aftur orðið að breyta fyrirkomulagi hluta hjá sér vegna þess að mannréttindasáttmálinn var innleiddur og gerður hér að lögum og menn gátu sótt rétt sinn á grundvelli hans, samanber aðskilnað sýslumanna og lögreglu og margt fleira í þeim dúr, dóma og rannsókna í sakamálum og þetta sem við þekkjum. Frægt var þegar maður var tekinn á reiðhjóli á Akureyri og það dró þann langa slóða að við urðum að skipta upp löggæslu og dómskerfinu (Forseti hringir.) í framhaldinu vegna þess að við fengum ákúrur frá (Gripið fram í.) Mannréttindanefnd Evrópu.