145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Ég tek undir það með hv. þingmanni að NPA, eða notendastýrð persónuleg aðstoð, er mjög mikilvæg þjónusta. Það skipti mig mjög miklu máli að við lykjum því tilraunaverkefni sem við hófum og fengjum fram niðurstöður úr því. Verkefnið fór seinna af stað en við ætluðum, það vill oft verða þannig með tilraunaverkefni. Ég á von á því að fá lokaniðurstöður og leiðbeiningar frá verkefnisstjórninni um verkefnið. Ég vildi bæta því við að nefnd á mínum vegum hefur verið með til umsagnar frumvarp um breytingar á þeirri þjónustu sem snýr að fötluðu fólki. Þar er gert ráð fyrir að þetta þjónustuúrræði verði lögfest.

Nefndin er ekki enn búin að skila þessum drögum til mín heldur vildi setja málið í umsagnarferli og bregðast við umsögnum. Það hefur verið gagnrýnt að gert er ráð fyrir að að einhverju leyti sé verið að framlengja tilraunaverkefnið meðan komist er að samkomulagi varðandi tekjuskiptingu við sveitarfélögin. Ég vil bara fá að segja það hér að ég tel að við eigum að lögfesta þetta. Við getum ekki haft þetta áfram sem tilraunaverkefni heldur á þetta að vera úrræði sem við bjóðum upp á. Við þurfum að finna þá leið með sveitarfélögunum hvernig við leysum þann kostnað sem fellur á sveitarfélögin í tengslum við það. Það er verkefnið sem er fram undan.