145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[18:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég held að mjög mikilvægt sé að þingnefndin fái til skoðunar þær umsagnir sem ráðuneytinu bárust svo Alþingi átti sig á því hvaða viðbrögð þetta mál veki. Það sem ég velti kannski sérstaklega fyrir mér er hvort allir þeir hópar sem eru færðir undan kjararáði, verði þessi tillaga að veruleika, hafi stöðu til þess að semja um sín kjör, því væntanlega er það spurningin sem við hljótum að spyrja okkur. Þetta er veruleg breyting. Við erum að segja að þessir hópar eiga þá að fara í þá vegferð að semja um sín kjör, sem er í sjálfu sér málefnalegur rökstuðningur og eðlilegur. En mér finnst eðlilegt að við áttum okkur á því hvort þarna eru einhverjir innan dyra sem gætu átt í erfiðleikum með þá stöðu. Það er eiginlega um það sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra, hvort hann geti upplýst okkur hvort einhver harðari viðbrögð séu frá einhverjum tilteknum hópum fremur en öðru.