145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[19:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ágæta ræða hæstv. fjármálaráðherra gefur tilefni til að drepa fingri á þrjár starfsstéttir. Í fyrsta lagi, ef ég væri væddur þeim baneitraða húmor sem einkennir t.d. fyrrverandi formann Lögmannafélagsins mundi ég segja að markmið frumvarpsins væri að tryggja að aðstoðarmenn ráðherra hefðu hærri laun en ráðherrarnir sjálfir. Í öðru lagi finnst mér merkilegt hvernig hæstv. ráðherra talar um þann möguleika að taka presta undan kjararáði. Hæstv. ráðherra orðaði það svo: „ef það tekst samkomulag við þjóðkirkjunnar um það.“ Er það þannig að einstaka hópar fái sjálfir ráðið um það hvort þeir verði utan eða undir kjararáði? Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra um þann starfshóp sem hann nefndi oftast, sendiherra: Er það þannig að taka eigi sendiherra, sem eru fulltrúar okkar gagnvart öðrum þjóðum og þurfa stöðugt að vera til taks o.s.frv., undan kjararáði og væntanlega gefa þeim verkfallsrétt þannig að þeir geti farið í verkfall ef þeir eru óánægðir og utanríkisþjónustan og þar með samskipti okkar við aðrar þjóðir kynnu að lamast? Mig langar aðeins að fá skýrari sýn á það hjá hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra má eiga það að hann er ærlegur, en hann er líka „realisti“. Hann rakti það hér sjálfur að frumvarpið hefði fengið mjög blendnar viðtökur og nefndi í hreinskilni sinni þrjá hópa. Telur hæstv. ráðherra gerlegt að samþykkja þetta frumvarp á þeim skamma tíma sem eftir lifir af þingi? Eins og hér kom fram áðan þarf þingið vitaskuld að sýna þeim sem bera skarðan hlut frá borði, eða telja svo, þann sóma að kalla þá fyrir og gefa þeim færi á að veita umsagnir. Höfum við tíma, svona tæknilega séð, til að klára þetta mál?