145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[19:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að það mun ekkert gerast varðandi starfskjör presta og biskupa, vígslubiskupa og prófasta nema með samkomulagi. Það er á grundvelli laganna sem gilda um þessi efni. Það samtal hefur verið lifandi og við skulum sjá hvað gerist í þeim efnum. Varðandi launaþróunina innbyrðis hef ég svo sem engu við orð hv. þingmanns að bæta. Ég get bara tekið undir að það virðist vera komin ákveðin skekkja í launaþróunina og hvet menn til að kynna sér 8. gr. laga um kjararáð sem er í raun og veru uppfull af þversögnum, með því að það er skotið inn setningu sem kom inn árið 2009:

„Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra.“

Þessari setningu er skotið mitt inn í 8. gr. laganna þar sem á hinn bóginn segir að ákvarða skuli laun þannig að þau séu sambærileg við það sem gerist annars staðar í þjóðfélaginu. Svona er umhverfi kjararáðs allt orðið skakkt og bjagað.