145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi 145. löggjafarþing var boðað að lögð yrðu fram fimm frumvörp til breytinga á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum. Þrjú frumvarpanna hafa þegar verið afgreidd sem þingmál 333, um einkaréttindi höfunda og samningskvaðir, þingmál 334, um munaðarlaus verk, og þingmál 362, um lengingu verndartíma hljóðrita.

Fjórða frumvarpið, um innleiðingu tilskipunar um sameiginlega umsýslu höfundaréttar 2014/26/ESB, verður ekki lagt fram á þessu þingi þar sem tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Fimmta frumvarpið er það þingmál sem ég mæli fyrir núna, þ.e. breyting á 11. gr. höfundalaga sem fjallar um eintakagerð til einkanota.

Virðulegi forseti. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga er einstaklingum heimilt að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar eiga höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skulu greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skyldan til að greiða gjöldin á innflytjendum og framleiðendum.

Með því að höfundalög heimila umrædda eintakagerð hvílir sú þjóðréttarlega skuldbinding á íslenska ríkinu að sjá til þess að höfundar og aðrir rétthafar útgefinna verka sem afrituð eru til einkanota fái skaðabætur fyrir það tjón sem þeir verða fyrir af þessum sökum í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu frá 22. maí 2001 sem var tekin upp í EES-samninginn með samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar 9. júlí 2004. Til útskýringar felst tjón höfunda m.a. í því að þeir verða af ákveðnum tekjum vegna eintakagerðarinnar. Fyrir vikið selja þeir færri eintök af útgefnum verkum sínum og geta einnig misst af tækifærum til að selja frekari útgáfu- og afnotarétt á verkunum.

Innheimta höfundaréttargjalds náði hámarki árið 2003, var þá 104 millj. kr., um sama leyti og CD-R og DVD-R voru vinsælir afritunarmiðlar fyrir höfundaréttarvarið efni. Frá árinu 2007 hafa tekjur af höfundaréttargjaldi farið lækkandi, eru núna komnar niður fyrir 8 millj. kr. á ári. Samdráttinn í tekjum má rekja til þess að dregið hefur úr innflutningi á auðum CD-R og DVD-R diskum í kjölfar breyttra aðferða við stafræna eintakagerð. Aðrir afritunarmiðlar eins og SD-minniskort, USB-minnislyklar og flakkarar hafa tekið við því hlutverki sem auðir, skrifanlegir diskar gegndu áður, auk þess sem afritun fer að einhverju leyti fram í innra minni í farsímum, spjaldtölvum og einkatölvum. Þessir miðlar og tæki bera hins vegar ekki höfundaréttargjald samkvæmt gildandi lögum og reglugerð nr. 125/2001 um innheimtu höfundaréttargjalds.

Til að bregðast við framangreindum vanda var skipaður starfshópur sem fékk það hlutverk að endurskoða reglugerð um innheimtu höfundaréttargjalds með tilliti til óska rétthafa um að breikka gjaldstofninn þannig að höfundaréttargjald væri einnig greitt af hvers konar fjölnota tækjum sem nýta má til upptöku og eftirgerðar verndaðra hljóðrita og myndrita, svo sem símum, tölvum, flökkurum, hörðum diskum og þess háttar stafrænum hljóð- og myndupptökubúnaði. Þegar tillaga að nýrri reglugerð um innheimtu höfundaréttargjalds lá fyrir kom í ljós að reglugerðarbreyting ein og sér dugði ekki til heldur þurfti að breyta lögunum. Drög að frumvarpi um slíka breytingu voru kynnt í opnu samráðsferli á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins 17. mars 2015.

Með vísan til þess sem ég hef rakið hér að framan liggur fyrir að bein athafnaskylda hvílir á íslenska ríkinu til að koma á fót lögbundnu fyrirkomulagi sem tryggir höfundum sanngjarnar bætur í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB. Í því efni eru einkum tvær leiðir færar, annars vegar að breikka gjaldstofn höfundaréttargjalds þannig að hann nái til nýrra stafrænna upptökumiðla og -tækja og hins vegar að fjármagna höfundaréttarsjóð með árlegu framlagi af fjárlögum.

Höfundaréttargjald hefur m.a. þann kost að það greiðist af notendum, þ.e. þeim sem gera eintak af höfundaréttarvernduðu verki til einkanota. Upptökumiðlar og -tæki til atvinnunota eiga hins vegar að vera undanþegin gjaldinu. Ókostur við breikkun á gjaldstofni höfundaréttargjalds er að það leiðir til sjálfkrafa hækkunar á verði stafrænna upptökumiðla og -tækja, auk fjölnota tækja sem nýta má til upptöku. Af breikkun höfundaréttargjalds getur aukist kostnaður við umsýslu hjá tollyfirvöldum og samtökum höfundaréttarfélaga sem fara með innheimtu gjaldsins. Reynslan sýnir einnig að álagning höfundaréttargjalds á fjölnota upptökumiðla og -tæki getur komið illa við notendur sem nota hina stafrænu upptökutækni einkum til að taka upp eigið efni og gera öryggisafrit af mikilvægum gögnum. Þá felur breikkun á gjaldstofni höfundaréttargjalds ekki í sér varanlega lausn þar sem fyrirsjáanlegt er að tæknibreytingar muni fyrr eða síðar kalla á endurskoðun á því hvaða miðlar og tæki eiga að bera höfundaréttargjald.

Eins og nánar er rakið í frumvarpinu hefur sú leið verið farin í Bretlandi, Finnlandi, Noregi og á Spáni að sanngjarnar bætur til höfunda greiðast samkvæmt fjárheimild í fjárlögum. Þessi aðferð hefur til að mynda þá kosti að ekki þarf að breyta reglum um innheimtu höfundaréttargjalds í samræmi við þróun í tækni við hljóð- og myndupptöku á hverjum tíma og umsýslukostnaður samtaka höfundaréttarfélaga verður minni, jafnframt því sem tollyfirvöld losna við þá umsýslu sem fylgir innheimtu gjaldsins hjá innflytjendum. Samtök höfundaréttarfélaga þurfa þá heldur ekki að endurgreiða innheimt höfundaréttargjöld og veita undanþágur frá greiðslu gjaldsins.

Í frumvarpinu eins og því hefur nýlega verið breytt er lagt til að sjóðsleiðin verði valin til að greiða sanngjarnar bætur til höfunda. Til að finna hlutlægan mælikvarða á tjón höfunda er lagt til að upphæð bóta miðist við ákveðið hlutfall af samanlögðu árlegu tollverði þeirra upptökumiðla og -tækja sem nota má til afritunar á höfundaréttarvörðu efni til einkanota.

Virðulegi forseti. Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að réttarstaða höfunda vegna tjóns sem hlýst af eintakagerð til einkanota af verkum þeirra batnar og verður sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum. Eins og fram kemur í frumvarpinu verður ákvörðun um fjárheimild til greiðslu sanngjarnra bóta tekin í tengslum við árlegan undirbúning frumvarps til fjárlaga. Með hliðsjón af tilgreindu hlutfalli tollverðs þeirra miðla og tækja sem nota má til afritunar má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs geti aukist um 234 millj. kr. á ársgrundvelli.

Ég legg áherslu á fara verður með slíka fjárheimild í samræmi við skyldu íslenska ríkisins til að koma upp fyrirkomulagi sem tryggir höfundum sanngjarnar bætur. Ég legg þunga áherslu á að hér er um að ræða stjórnarskrárvarinn eignarrétt höfunda en ekki menningarstuðning. Fjárheimild til bótanna í fjárlögum þarf að endurspegla þessa staðreynd.

Virðulegi forseti. Ég hvet þingheim eindregið til að kynna sér yfirgripsmikla og ítarlega umfjöllun um framangreind álitaefni og forsendur frumvarpsins í greinargerð og athugasemdum við einstök ákvæði þess.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.