145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu máli sem ég veit að rétthafar hafa beðið eftir að fá tillögur um, og beðið alllengi eftir því. En mig langar þó að biðja hæstv. ráðherra að skýra ákveðna hluti fyrir mér, í ljósi þess að í greinargerð með frumvarpinu er farið yfir nokkra þá dóma sem hafa verið að falla hjá Evrópudómstólnum. Þar kemur fram að fallið hafi dómur vegna breytinga á Spáni þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að Evróputilskipun girti fyrir að bótakerfið væri þannig fjármagnað á almennum fjárlögum að ekki væri hægt að tryggja að kostnaður við sanngjarnar bætur legðust á notendur eintaka sem gerð væru til einkanota. Í þessari ágætu greinargerð kemur fram að af fyrrnefndum dómi Evrópudómstólsins í máli sem kennt hefur við EGEDA megi hins vegar ráða að gæta þurfi þess við útfærslu á bótakerfi sem er fjármagnað af fjárlögum að kostnaður af greiðslu bótanna leggist á þá einstaklinga sem nýta sér heimild til gerðar eintaks til einkanota en falli ekki almennt á skattgreiðendur. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra fyrir mér hvernig þetta er tryggt með þessu frumvarpi í ljósi þess að hæstv. ráðherra upplýsir okkur um að þetta muni kalla á útgjöld á ársgrundvelli úr ríkissjóði upp á 234 milljónir. Erum við þá ekki að leggja þennan kostnað almennt á skattgreiðendur? Þetta eru flókin mál og ég bið hæstv. ráðherra að skýra það fyrir mér hvernig við tryggjum þá að þessi greiðsla leggist á þá einstaklinga sem nýta sér heimild til gerðar eintaks til einkanota samkvæmt þessum dómi Evrópudómstólsins.