145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð ljóst að þegar gjaldaleiðin er farin munu einstaklingar sem ekki eru að nota þessi tæki til að fjölfalda höfundaréttarvarið efni — eru til dæmis bara að kaupa sér minniskubba til þess að setja á persónulegar ljósmyndir eða annað efni — lenda í því samt sem áður að greiða. Það er í raun ekki hægt að búa til leið þar sem einungis þeir sem akkúrat taka niður efni borga. En það sem átt er við í spænska fordæminu, sem hv. þingmaður vísar til, er að þar er búinn til sjóður, en deilan sem varð þar snerist um að höfundarétthafarnir bentu á að sú upphæð sem var í þeim sjóði væri langt fyrir neðan það sem gjaldið hafði gefið af sér áður. Fyrir þeirri upphæð sem þar var sett inn voru engin málefnaleg rök heldur var það bara einhliða ákvörðun ríkisvaldsins þar að setja tiltölulega lága fjárhæð og þeir töldu sig þar með hafa uppfyllt sína þjóðréttarlegu skyldu.

Í þeirri leið sem við förum leggjum við upp með sjóð en að baki ákvörðuninni um upphæð er málefnaleg regla sem er þingfest og lögfest. Ef vilji er til að breyta þeirri reglu þarf það að fara fyrir þingið. Við náum að endurspegla það fyrirkomulag að lagt sé á gjald sem ég ítreka að hefur þá verið lagt á alla og samt sem áður að fara þá þessa sjóðsleið.

Með því að sjóðsleiðin er farin og með þeirri málefnalegu reglu sem við leggjum til grundvallar er lagt mat á hverjar séu sanngjarnar bætur sem eigi að renna til höfundaréttarhafanna. Það er vandamál að skilgreina nákvæmlega hver sú upphæð eigi að vera. Dómafordæmin skilja ekki eftir neina einfalda reglu um það. Það sem hv. þingmaður vísar hér til, sem segir að það megi ekki leggjast á aðra, þá er það í þeirri hugsun hver gjaldupphæðin eigi að vera. Því eins og augljóst er, þegar gjald er lagt á, eins og er gert í mörgum löndum, (Forseti hringir.) eins og t.d. Þýskalandi og fleirum, þá leggst það á fleiri en þá sem einungis eru að taka niður höfundaréttarvarið efni. Það er það sem átt er við og þannig ber að túlka þessa dóma.