145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek fram að ég er ekki á móti því að fundin sé sanngjörn og góð lausn fyrir rétthafa. En mér finnst hins vegar mikilvægt að við séum þá meðvituð um það ef við kunnum að lenda á einhverjum hindrunum, t.d. hvað varðar þá dóma sem hafa fallið í Evrópu.

Skil ég þá hæstv. ráðherra sem svo að það að tengja þetta í frumvarpinu við hlutfall af tollverði, eins og hér er lagt upp með, og í raun reiknað út frá þeim tækjum og tólum sem hæstv. ráðherra nefndi hér í sinni framsögu — það að tengja fjárheimildina sem veitt verður í fjárlögum við þessa tilteknu prósentu, er það réttur skilningur hjá mér að hæstv. ráðherra og hans ráðuneyti telji þá að þar með séum við ekki að gera neitt sem stangast á við dóm Evrópudómstólsins í máli Spánar? Þar var aðalforsendan ekki sú eins og ég hef skilið hana, því að við höfum auðvitað haft það þannig að þessi gjöld hafa verið lögð á og lagst á alla þá sem kaupa viðkomandi tól og tæki, hvort sem þeir nýta þau til afritunar efnis eða ekki. Ég hef ekki skilið það sem svo að það hafi endilega verið vandamálið heldur að það sé mikilvægt að það sé ekki á hendi fjárveitingarvaldsins hverju sinni hver upphæðin á að vera.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Með þessari breytingu, þ.e. að þetta sé talið hér upp sem hlutfall af tollverði, telur hann þá að það bindi hendur fjárveitingavaldsins nægilega til að koma til móts við dóm Evrópudómstólsins? Því að nú höfum við auðvitað fordæmi fyrir því að við höfum samþykkt ýmsa markaða tekjustofna sem hafa svo verið teknir úr sambandi. Það þekkjum við hæstv. ráðherra bæði. Og virðist vera, þegar þetta fer í gegnum fjárlög, að það sé einfaldara að gera það en þegar tekjustofninn er sjálfstæður sem slíkur. Telur ráðherra að þetta sé þá nægjanleg girðing til að koma til móts við dóm Evrópudómstólsins? Hefur hann engar áhyggjur af því að þessu verði þá kippt úr sambandi með fjárheimildum? Er búið að girða fyrir það?