145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að nægilega vel sé um þetta búið með þessum hætti. Lagt er upp með málefnaleg rök fyrir upphæð gjaldsins. Tekin er ákveðin hundraðstala af verðmæti þeirra tollflokka sem um er að ræða og er það grunnurinn að upphæðinni sem fer í sjóðinn.

Ef breyta á þeim grunni þarf það að fara fyrir þingið og breyta þarf þeim lögum þannig að hægt sé að breyta upphæðinni. Þar af leiðandi getur framkvæmdarvaldið eitt og sér ekki gert slíkar breytingar. Ef löggjafarvaldið ákveður að breyta þessu, eins og gerðist til dæmis í tilviki Spánar, þar sem sett er miklu lægri upphæð en áður var, geta rétthafar höfðað mál og bent á að annaðhvort sé engin regla til grundvallar og þar af leiðandi séu rök ómálefnaleg og ekki um að ræða réttlátt gjald eða að sú regla sem notuð er sé ekki málefnaleg eða ekki rétt. Þá er hægt að deila um það fyrir dómstólum. Aðalatriðið er að sú regla sem við horfum til í þessu frumvarpi er þannig hugsuð að það gjald sem höfundaréttarhafar fengu hér áður heldur sér nokkurn veginn og er grundvallað með þessari aðferð. Það er lykilatriði að mínu mati vegna þess að það sem gengi ekki er einfaldlega að hafa tölu í sjóð sem þing eða framkvæmdarvald geti breytt eftir hentugleika við hverja fjárlagagerð. Með öðrum orðum: Hér er um að ræða eignarréttindi sem eru varin í stjórnarskrá og eru bundin alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist og því er ekki um að ræða einhvers konar framlag í sjóð eða, eins og ég orðaði það hér í ræðu minni, framlag til menningarmála heldur er um að ræða eignarréttindi sem er klárt mál að menn eiga rétt á að fá greitt fyrir.