145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ja, lagatæknilegt og ekki lagatæknilegt. Staða málsins er bara sú að Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar. Dómafordæmin sem rakin eru í greinargerðinni eru alveg skýr hvað það varðar að Ísland hefur skyldu til að koma upp svona kerfi. Deilan getur staðið um það hvað séu sanngjarnar bætur, hver fjárhæðin eigi að vera, og síðan um aðferðina, þ.e. hvort sjóður er fyrir hendi eða hvort gjald er lagt á tæki. En skyldan er óumflýjanleg og er til staðar. Ég og hv. þingmaður getum auðvitað farið í gegnum þá röksemdafærslu sem er áhugaverð, en hún breytir ekki þeim hluta málsins sem endurspeglast í hinum alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir, og síðan ákvæðum stjórnarskrár um eignarréttindi o.s.frv.

Hvað varðar hugtakið skaðabætur þá er ekki verið að tala um bætur í sömu merkingu orðsins og örorkubætur eða ýmsar aðrar bætur í samfélaginu, barnabætur eða eitthvað slíkt. Hér er um að ræða skaðabætur. Skaði myndast vegna þess að ef ekki er um að ræða svona kerfi yrðu höfundaréttarhafar fyrir skaða því að hægt er að taka hvort sem er tónlist eða bók eða mynd eða hvað það nú er, og fjölfalda með ólöglegum hætti ef við erum ekki með neitt svona kerfi. Og enn og aftur: Fyrir liggja fjölmargir dómar Evrópudómstólsins um nákvæmlega þann þátt málsins. Ég bendi á t.d. hollenska dóminn um þá skyldu til að koma á svona kerfi. Tekist hefur verið á um það og það er alveg ljóst að ríkinu ber að gera þetta. Einu álitaefnin eru: Ætlum við að hafa sjóðsfyrirkomulag eða leggja gjald á öll tækin, og hver er upphæðin? Það eru álitamálin. Önnur álitamál eru í raun ekki til staðar í þessu máli. En ég sé aftur á móti í hendi mér að það geti verið mjög áhugaverð umræða um eðli (Forseti hringir.) þessara hluta og hvað átt er við með þessu öllu saman. Þetta er bara lagaleg staða málsins. Það er það sem knýr þetta áfram og ég tel að íslensk stjórnvöld hafi hér skyldu sem þau verða að uppfylla.