145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta málefnaleg nálgun hjá hv. þingmanni eins og hans er von og vísa. En það má kannski segja að þessi flókni veruleiki kalli á að lausnir séu með þessum hætti og einfaldi málið og taki það eiginlega frá. Ég er svo sem sammála þeirri hugsun hv. þingmanns.

Í gamla daga, þegar ég var að byrja hér sem þingmaður, sagði reyndur þingmaður við mig: Aldrei fara upp og spyrja spurningar nema þú vitir svarið sjálfur. En ég ætla að brjóta þessa reglu og nú ætla ég bara að spyrja, af því að ég hef áhuga á að heyra svarið. Það er út af þessu með skaðann sem hv. þingmaður var að velta fyrir sér. Við skulum segja að hjón kaupi sér eina plötu eða geisladisk eða hvað það nú er, við skulum bara taka það dæmi. Svo ákveða hjónin að haldin verði tvö samkvæmi þetta kvöld, eitt í sumarbústað hjónanna og eitt á heimili þeirra. Kallinn heldur partí í sumarbústaðnum og konan heldur partíið heima hjá þeim. Bæði vilja nú spila þessa tónlist sem þau hafa keypt. Í staðinn fyrir að fara og kaupa annað eintak gera þau afrit og sama kvöldið á sömu mínútunni er umrætt lag spilað á tveimur stöðum, og hafa þau mestu skemmtan af. En höfundurinn eða hljómsveitin sem bjó til lagið — ef þessi skemmtan hefði átt að fara fram á báðum stöðunum samtímis hefði höfundurinn selt eitt aukaeintak og tvö eintök verið seld — varð fyrir skaða af því að hægt var að afrita lagið, fara með það upp í sumarbústað og spila það á sömu stundu og það var spilað á heimili þeirra hjóna. Þarna mundi ég segja að sannarlega hefði orðið skaði fyrir listamanninn sem átti höfundaréttinn.

Mig langar að heyra hvernig hv. þingmaður nálgast þetta.