145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það dæmi sem hæstv. ráðherra leggur hér fram sýna vel hve þessi leið og þessi nálgun á höfundaréttinn stenst illa raunveruleikann. Það þarf að setja þetta í það samhengi að um sé að ræða hjón sem ætla að spila sömu tónlistina á tveimur stöðum á sama tíma til þess að þetta sé á einhvern hátt rökrétt. Ef við segðum sem svo að veislan væri haldin með tveggja klukkutíma millibili og nógu stutt væri á milli sumarbústaðarins og heimilisins til þess að komast þar á milli á hálftíma mundi engum detta í hug að þú kaupir tvö eintök. Þú mundir ekki einu sinni þrjóskast við og halda bæði teitin á sama tíma. Þú mundir ekki einu sinni nenna því. Þú mundir bara fara á milli í staðinn fyrir að kaupa nýtt eintak.

Ég hygg að hjónin mundu ekki kaupa nýtt eintak. Ég hygg að þau mundu einfaldlega tímasetja teitið í samræmi við vandamálið. Ég hygg einnig að það væri ekki á nokkurn hátt brot við lögin ef þau héldu teitið heima hjá sér fyrst, færu hálftíma síðar með sama geisladiskinn upp í sumarbústað og spiluðu hann þar. Ég held að enginn segði að skaði hefði orðið af því. (Gripið fram í: En hvað með partíið?) Ég veit ekki um neinn sem mundi halda að það væri einhvers konar skaði, hvorki hvað varðar þessi lög né önnur. Mér finnst þetta undirstrika hve galin þessi nálgun er.

Hitt er að þetta er mjög sértækt dæmi. Langsjaldnast er þetta raunverulega tilfellið. Langoftast er um að ræða fólk sem er að nota sama efnið í bílnum og heima hjá sér eða inni í stofunni og í vinnunni eða eitthvað því um líkt. Eðlismunurinn á því gagnvart rétthafanum, hvort um er að ræða geisladisk sem þú ferð með í vinnuna eða efni sem þú setur upp á ský og notar í vinnunni og heima hjá þér, er enginn. Það er enginn eðlismunur á hagsmunum notandans eða rétthafans í því tilfelli. Ég velti því fyrir mér hvort þetta svarar spurningunni, ég veit að hægt er að ræða þetta lengur, en tími minn er víst þrotinn í þessu andsvari.