145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski endar þetta þannig að við verðum sammála um þetta mál en af fullkomlega ólíkum ástæðum. Ég er í sjálfu sér sammála hæstv. ráðherra um það að orðalagið skiptir ekki öllu máli. Það hvort við köllum þetta bætur eða greiðslur er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Að því sögðu finnst mér skipta máli að löggjöfin sé sem mest í tengslum við upplifun notandans af réttlæti. Það er enginn ágreiningur um að rétthafar eiga að fá borgað. Ég geri ekki einu sinni ágreining um það hvernig sú upphæð er ákvörðuð samkvæmt frumvarpinu. Mér finnst sú ákvörðun frekar snjöll ef eitthvað er.

En ef hún væri sett fram, ef það væri lagatæknilega mögulegt, sem ég geri mér grein fyrir að er ekki endilega tilfellið — við sjáum til með það eftir nefndastörf — ef ákvæðið væri orðað á þann veg að þetta væri leiðin sem yfirvöld, ríkisvaldið, væru búin að ákveða að fara til að borga rétthöfum sanngjarnt verð fyrir það að hafa gefið út efni, væri það strax nærri þeim raunveruleika sem notandinn upplifir. Það að verið sé að bæta skaðann segir notandanum að verið sé að bæta upp skaða fyrir ólöglega dreifingu sem er efnislega rangt eins og við höfum farið hér yfir en það eru skilaboðin sem notandinn fær. Lögin verða tormelt fyrir notandann og ég lít svo á að það sé vandamál í málaflokknum. Það gerir það bara erfiðara að reyna að finna heilsteyptar lausnir. Það er erfiðara að fá notandann að borðinu, fá hann til að skilja hugmyndirnar sem eru á borðinu og samþykkja þær. Ég veit alveg að fólk verður reitt. Ef ég passa mig ekki á því að spyrja fullt af fólki út í þetta, útskýra þetta fyrir því, veit ég að allir verða brjálaðir ef ég greiði atkvæði með þessu frumvarpi. Ég veit alveg að misskilningurinn er ofboðslega djúpstæður. Ég vil meina að hann sé svo djúpstæður út af orðanotkuninni, út af þessu flóknu lagahugtökum og út af því hversu fjarlægt raunveruleikanum það hugarfar er sem höfundaréttur endurspeglast í samkvæmt öllum þessum alþjóðasamningum.