145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins fá að halda áfram á þeim nótum sem ég var á áðan í andsvari mínu við hæstv. ráðherra. Þessi mál eru allflókin. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari vel yfir dómafordæmin sem er farið yfir í greinargerðinni. Hæstv. ráðherra gerði sitt besta til að skýra þessi mál áðan í andsvari en ég staldra enn við það að í máli hæstv. ráðherra kom réttilega fram að með því að fara gjaldtökuleiðina, þ.e. leggja gjald á viðbótartól og -tæki, sé ekki endilega víst að þeir sem kaupi slík tól og tæki nýti sér þau til afritunar á verkum. Þetta er vissulega rétt. Hins vegar kemur skýrt fram í dómnum gagnvart Spáni að það sé mikilvægt að það séu ekki skattgreiðendur sem beri kostnaðinn heldur þeir sem nýta sér tól og tæki til að afrita þó að það sé engin leið að fylgjast með því. Ég á svo erfitt með að skilja, og vona að hæstv. ráðherra komi í andsvar eða lokaræðu og útskýri það betur, hvernig nákvæmlega það getur farið saman að við ætlum ekki að láta þennan kostnað leggjast á skattgreiðendur almennt, sem er sú leið sem er lögð til í frumvarpinu, þrátt fyrir þann dóm sem hefur fallið hjá Evrópudómstólnum um að kostnaðurinn verði sannanlega að greiðast af þeim sem afrita höfundaréttarvarið efni.

Hæstv. ráðherra fór í svari sínu við andsvari áðan yfir að fyrir þetta væri girt með því að setja inn þá reglu sem er sett fram í frumvarpinu þar sem þetta er ekki tekið sem eitthvert slembiframlag af fjárlögum, ákveðið af fjárlaganefnd eða fjármálaráðuneyti á hverju ári, heldur reiknað út frá ákveðnum formúlum sem miðast við ákveðið hlutfall af tollverði seldra tækja eins og ég skil það þannig að þarna séum við í raun að leggja til ákveðna formúlu til að reikna út viðeigandi bætur sem renni til rétthafa.

Gjaldið er hins vegar ekki innheimt þannig að aukakostnaður ríkissjóðs vegna málsins er þá 234 milljónir á ári samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpinu. Þá spyr ég: Hvernig komumst við hjá því sem kemur fram í dómnum, að kostnaðurinn leggist ekki á alla skattgreiðendur? Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra þetta fyrir okkur og mælast til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari yfir það. Ég er mjög fylgjandi því að einhver lausn verði fundin á þessum málum. Við vitum að rétthafar hafa lengi beðið eftir úrlausn sinna mála en ástæða þess að ég spyr út í þetta er sú að þetta er önnur leið en var kynnt og kemur fram í ágætri greinargerð:

„Drög að frumvarpinu og endurskoðaðri reglugerð um innheimtu höfundaréttargjalds voru kynnt í opnu samráðsferli á vef ráðuneytisins 17. mars 2015.“

Þá bárust umsagnir frá Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði og Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Síðan segir:

„Í ágúst 2016 voru gerðar þær breytingar á frumvarpsdrögunum að fallið var frá því að endurskoða grundvöll fyrir innheimtu höfundaréttargjalds á nýja stafræna miðla og upptökutæki. Í þess stað er nú lagt til að bætur greiðist úr ríkissjóði til höfunda vegna tjóns sem hlýst af eintakagerð á til einkanota.“

Það er önnur umræða sem fór fram áðan hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og hæstv. ráðherra.

Hugmyndafræðin sem var kynnt upphaflega þegar málið var kynnt var að það ætti að leggja á gjald. Það var um þetta fjallað á t.d. málþingi í Iðnó þar sem sátu fulltrúar allra flokka og allir flokkar lýstu sig reiðubúna til að standa að því að slíkt gjald yrði lagt á. Síðan hafa orðið ákveðin umskipti og mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann hefur tök á að svara því, hvað valdi því að horfið er frá því að leggja á þetta gjald. Var eitthvað í umsögnum rétthafa sem olli því? Eða var það öllu fremur pólitísk ákvörðun um að leggja ekki á slíkt gjald?

Það kemur hér fram í töflunni sem fylgir greinargerðinni á bls. 14 að þessi leið, þ.e. að það séu engin höfundaréttargjöld heldur framlag úr ríkissjóði til rétthafans, hafi verið tekin upp í nokkrum löndum. Það er vitnað til Finnlands, Noregs og Spánar. Spánn er þarna talinn upp en eigi að síður er búið að fella dóm sem væntanlega mun leiða til þess að Spánn þarf a.m.k. að endurskoða sína leið. Það væri áhugavert að vita hvort eitthvað slíkt væri á döfinni annars staðar eða hver munurinn sé þá á leiðinni sem er farin í Finnlandi, Bretlandi og Noregi annars vegar og Spáni hins vegar, bara svo við skiljum betur þessi tæknilegu atriði sem er nauðsynlegt að skilja ef við viljum að þetta mál sé afgreitt með fullnægjandi hætti.

Þetta kallar á útgjöld úr ríkissjóði upp á 234 milljónir á ári en hér stendur að ekki hafi verið gert ráð fyrir slíkum útgjöldum í fjárlögum og fjármálaáætlun. Í ríkisfjármálaáætlun var, ef ég man rétt, gert ráð fyrir 300 millj. kr. útgjaldaauka til menningarmála en mér fannst hæstv. ráðherra segja áðan að þetta ætti ekki að túlka sem framlög til menningarmála heldur bætur fyrir stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti komið að því. Það breytir því hins vegar ekki, og það finnst mér mikilvægt að komi fram, að ekki er gert ráð fyrir þessum fjármunum í ríkisfjármálaáætluninni. Þessi áætlaði útgjaldaauki upp á 234 milljónir sem við ætlum þá að taka úr ríkissjóði og ekki láta þessa neytendur borga — höfum við einhverja sýn á það hver hann gæti orðið til lengri tíma? Er þetta eitthvað sem við sjáum fyrir að muni haldast nokkurn veginn stabílt út frá þeirri formúlu sem er lögð til í frumvarpinu eða sjáum við fyrir okkur að það gætu orðið einhverjar sveiflur á þessu, aukning eða eitthvað slíkt? Þetta finnst mér líka mikilvægt að við höfum í huga. Þetta er kannski smáatriði í hinu stóra samhengi ríkisfjármálaáætlunarinnar en samt sem áður er þetta nánast öll aukning á framlögum til menningarmála sem þarna er lögð til á einu ári. Það er mikilvægt að þingmenn séu meðvitaðir um þetta.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna en mér finnst þetta mikilvægar spurningar sem við þurfum að fá svör við. Við fáum þau kannski ekki öll í þessari umræðu. Eins og ég segi verður þetta tekið fyrir hjá allsherjar- og menntamálanefnd. En af því að þetta er flókið og af því að við viljum vita hvað við erum að gera vil ég segja að ég útiloka ekki að þessi leið geti verið allt eins góð og sú sem var áður kynnt og komið til móts við það sem við þurfum að koma til móts við að mínu viti. Mér finnst hins vegar mikilvægt að við fáum mjög góð svör við þeim spurningum sem hefur verið varpað upp hér þannig að við getum verið sannfærð um að þessi leið sé ekki síðri þeirri sem var kynnt á vef ráðuneytisins í fyrra og virtist, eins og ég vitnaði til áðan, njóta almenns stuðnings meðal fulltrúa allra flokka á þeim opnu fundum sem hafa verið haldnir bæði af Bandalagi íslenskra listamanna og með samtökum rétthafa síðasta árið. Það væri líka gott að fá skýringar á því hvað veldur stefnubreytingunni.