145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda lengra áfram með þetta varðandi Spán. Aðalatriðið er að við komum hér á kerfi sem endurspeglar gjaldtökuna en í staðinn fyrir að gjaldið sjálft sé lagt á er það tekið úr ríkissjóði. Það er með öðrum orðum ekki hægt að tryggja það sem hér er verið að ræða, að gjald sé einungis lagt á þá sem taka afrit því að þá þyrftum við að vita hverjir það eru. Það þyrfti lögregluríki til þess af mjög alvarlegri gráðu. Ég tel að það fyrirkomulag sem hérna er sett upp sé skothelt hvað þetta varðar. Það er eins og sett sé á gjald með sama hætti, það er lögvarið, en síðan er jafngildi þess greitt úr ríkissjóði.

Hvað varðar meðferðina í fjárlögum er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því sem ég mun segja hér. Ef við tækjum nú þá ákvörðun, sem væri mjög vond ákvörðun, að leggja niður mennta- og menningarmálaráðuneytið og leggja niður öll útgjöld íslenska ríkisins til menningarmála, hætta því, og svo mundum við líka leggja af ríkisfjármálaáætlunina, hætta að horfa til þeirra hluta, mundi það breyta einhverju hvað varðar þessar greiðslur? Svarið er nei. Áfram stæði upp á ríkið sú skylda að inna þessar greiðslur af hendi. Með öðrum orðum: Hér er ekki um að ræða framlög til menningarmála með sama hætti og t.d. framlög til Þjóðleikhússins eða Sinfóníuhljómsveitarinnar eða eitthvað slíkt heldur er um að ræða eignarréttindi varin stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum sem Íslendingar hafa gengist undir. Þar af leiðandi væri fráleitt að líta svo á að hér væri um að ræða framlög sem færu í gegnum mennta- og menningarmálaráðuneytið enda er núverandi fyrirkomulagi á gjaldtökunni ekki þannig háttað. Þeir fjármunir sem eru innheimtir af gjaldinu renna í ríkissjóð og þaðan áfram til höfundanna og höfundarétthafa. Nákvæmlega sama fyrirkomulag þarf að hafa áfram hér. Það væri fullkominn misskilningur og algerlega röng aðferðafræði að líta svo á að þetta framlag eigi að fara í gegnum mennta- og menningarmálaráðuneytið. Það á ekki að fara þar í gegn. Það á að fara beint til höfundarétthafanna, bætur, (Forseti hringir.) vegna þess að öll dómafordæmin benda nákvæmlega í þá átt. Hér er um að ræða skaðabætur vegna afritagerðar (Forseti hringir.) og þá væri fráleitt að meðhöndla það með sama hætti og við gerum með menningarmál.