145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er mjög gott að það komi skýrt fram að ætlunin er ekki að taka þetta af framlögum til menningarmála. Það sem mér finnst standa hins vegar eftir og hæstv. ráðherra hefur kannski ekki náð að svara í andsvörum hér er af hverju þessi ákvörðun var tekin, þ.e. að falla frá gjaldtökunni og hverfa yfir í þetta fyrirkomulag. Ég spurði hér áðan af hverju hún var tekin. Er það vegna umsagna frá félögum rétthafa sem sendu inn umsagnir við það frumvarp sem var kynnt? Eins og ég kom að áðan höfðu fulltrúar allra flokka lýst yfir stuðningi við það. Eða var það bara pólitísk ákvörðun? Hæstv. ráðherra hefur kannski ekki tök á að svara því í andsvari, (Gripið fram í: Við viljum ræðu.) já, við viljum gjarnan fá ræðu um þetta ágæta mál. En það er mikilvægt a.m.k. að það sé skýrt því að það kemur ekki fram í greinargerðinni af hverju ákvörðun um þessa grundvallarbreytingu er tekin.