145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að segja hér nokkur orð og vonast til að það flýti málsmeðferð í þinginu að reyna að skýra og svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín.

Áðan flutti hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson í ágætri ræðu rök fyrir því hvers vegna hann væri sáttari við þessa uppsetningu málsins en það fyrirkomulag sem við höfum nú varðandi gjaldtökuna. Mér fundust þau rök ágæt og er í grundvallaratriðum sammála þeirri hugsun. Það er í fyrsta lagi til einföldunar og fremur til sátta fallið í samfélaginu að gera þetta með þessum hætti. Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að það sé betra að nálgast þetta svona, og við sjáum að við erum ekki ein á báti hvað það varðar, það hafa ýmsar aðrar þjóðir tekið upp þessa leiðina. Frekar en að eltast nákvæmlega við einstaka tollflokka tökum við þá ákvörðun sem endurspeglast núna í þessu frumvarpi, sem er reyndar til reglubundinnar endurskoðunar. En alltaf verður undirliggjandi að þetta sé greitt úr ríkissjóði og þar með erum við að einfalda gerðina, þ.e. þetta verður ódýrara þegar upp er staðið. Það er alls kyns umsýslukostnaður sem fellur á tollayfirvöld og reyndar líka á höfundaréttarhafana vegna þess að það þarf að finna út úr endurgreiðslum fyrir þá sem eru með afritagerð í atvinnuskyni o.s.frv. Það er flækjustig í því. Þess vegna held ég að það sé einfaldara fyrirkomulag sem hér um ræðir.

Þegar þetta tvennt skoðað saman held ég að með því að fara þá leið sem við förum, að spegla í raun gjaldtökuleiðina — en í staðinn fyrir að leggja síðan gjaldið sjálft á borgum við það beint úr ríkissjóði — er lykilatriði hér og þegar maður horfir á umsagnir aðila og þá grundvallarhugsun sem felst í gjaldtökunni. Við speglum hana á þennan hátt en leggjum síðan ekki gjaldið sjálft á. Það væri allt annað og ég mundi skilja vel ástæður þeirrar spurningar hvers vegna menn hafi fallið frá eða farið aðra leið ef við hefðum bara sagt: Við ætlum að stofna sjóð og setja í hann ákveðna upphæð sem síðan verður alltaf ákveðin með fjárlögum. Þá þætti mér við vera komin með allt annað fyrirkomulag og þá kæmi reyndar inn fordæmi sem við höfum frá Spáni af miklu meiri þunga.

En af því að við gerum það ekki heldur speglum gjaldtökuna með þessu ákvæði í frumvarpinu og leggjum síðan ekki gjaldið sjálft á heldur borgum það bara beint út úr ríkissjóði náum við báðum þessum markmiðum, þ.e. að grundvöllurinn sé eins og gjaldtakan, það sé málefnaleg regla, en líklegra er að sátt náist um það í samfélaginu.

Ég hef skilið það þannig að ekki sé ágreiningur um þessa aðferð og hugsun af hálfu þeirra sem eru í forsvari fyrir höfundaréttarsamtökin. Ég á ekki von á því að í vinnu nefndarinnar komi fram athugasemdir við þetta af því að við speglum þessa leið sem annars hefði verið farin, ítreka ég. Þetta er bara spurning um að í staðinn fyrir að leggja gjaldið á greiðum við ígildi þess úr ríkissjóði. Ég held að það sé ágæt lausn. Hún girðir fyrir ýmis þau vandamál sem m.a. spænska leiðin býr til. Ég ítreka þetta með fordæmið frá Spáni, þar stóð deilan um að það voru einfaldlega ekki, að mati höfundaréttarsamtakanna, nægjanlegir fjármunir í sjóðnum og ekki voru málefnaleg rök af hálfu spænskra stjórnvalda fyrir því hvers vegna svona lítil fjárhæð var í sjóðnum. Ef maður skoðar framlagið þar sér maður að þegar það fyrirkomulag var tekið upp datt framlagið mjög bratt niður. Menn gerðu síðan athugasemdir við það. Þannig skil ég dóminn sem og þeir lögfræðingar sem fengist hafa við málið hjá mér, að það sé sú hugsun að menn geti ekki með ómálefnalegum hætti ákveðið eitthvert gjald og jafnvel mjög lágt. Dómafordæmin skýra ekki hugtakið „sanngjarnt gjald“. Þau láta ríkjunum það eftir að finna það. Við mat á því þarf að horfa til þess hver skaðinn getur verið. Þá eru menn að reyna að leggja mat á umfangið o.s.frv. En það er engin ein leið til að gera það nákvæmlega. Gjaldstofninn þarf samt sem áður að vera fundinn út með málefnalegum og skýrum hætti. Og það höfum við gert, tel ég, í þessu frumvarpi.

Það er alveg hárrétt sem hér hefur verið bent á, þetta eru flókin mál og kannski býsna fjarri almenningi um margt. Ég get vel skilið þau viðhorf. En að endingu er þó það sem mér finnst vera einfalt. Hér er um að ræða réttindi sem eru stjórnarskrárvarin og varin með þeim alþjóðaskuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir. Okkur ber að virða þau. Dómafordæmin frá Evrópu segja að það sé fortakslaus skylda hjá okkur að hafa slíkt kerfi. Við getum síðan valið hvort við förum sjóðsleiðina eða leggjum gjaldið beint á. Við förum eiginlega báðar leiðir, þ.e. við skilgreinum gjaldið eins og við ætlum að leggja það á, en í staðinn fyrir að framkvæma gjaldtökuna greiðum við ígildi þess, jafngildi, úr ríkissjóði.

Þá er eitt eftir og ég legg á það áherslu og það skiptir öllu máli að skilningur sé á því: Menn mega ekki rugla þessu saman við önnur menningarframlög. Það væri fráleitt og fullkominn misskilningur á málinu og eðli þessara greiðslna. Hér er ekki um að ræða val ríkisvaldsins til þess að styðja við eða styrkja, hér er ekki um að ræða stuðning eða styrk. Um er að ræða eignarréttindi sem verið er að bæta fyrir. Það er algert lykilatriði. Og þau munu verða greidd þó að menn leggi niður mennta- og menningarmálaráðuneytið og þó að engin ríkisfjármálaáætlun sé í gangi o.s.frv. Það er kjarni málsins.