145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni í þessum efnum. Mér er annt um fullveldi Íslands og mér er líka annt um stjórnarskrá Íslands. Það skiptir máli að farið sé eftir henni. Þetta eru æðstu lög ríkisins. Það er gríðarlega mikilvægt að menn séu algerlega réttum megin hryggjar þegar kemur að umgengni við hana. Þess vegna hefði verið svo eðlilegt að gera þessa lagfæringu, sérstaklega eftir þau ítrekuðu skipti þar sem menn hafa verið í nákvæmlega sömu umræðunni og við erum núna. Það er eiginlega sorglegra en tárum taki að ekki skyldi vera meiri burður í Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að þessu efni, eins og menn hafa nú talað digurbarkalega um að það þyrfti að gera tiltekt á þessu sviði og verið sammála um að þetta væri ótækt fyrirkomulag sem yrði að lagfæra.

Í þessu máli var það einfaldlega landsfundur Framsóknarflokksins sem setti stefnuna, ekki bara fyrir Framsóknarflokkinn, heldur fyrir ríkisstjórnina alla. Og eftir því var dansað. Þess vegna er það þannig að stjórnarskrárnefndin, sem hefði mjög auðveldlega getað skilað fjórum nýjum ákvæðum og tillögum að stjórnarskrá Íslands, skilaði á endanum bara þremur. Um þetta náðist ekki samstaða. Ég er þó sannfærður um að það er örugglega 80–90% stuðningur við það hér í þinginu að klára þetta mál þannig að það sé með viðunandi hætti hægt að ganga frá málum eins og því sem hér er á ferðinni þar sem er um framsal valdheimilda að ræða.