145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Gráa svæðið. Hv. þingmaður sagði: Við skulum tala um gráa svæðið. Ég ætla aðeins að ræða um það. Það framsal sem í þessu máli felst veitir yfirþjóðlegri stofnun leyfi til þess að grípa inn í hvers kyns fjármálastarfsemi á Íslandi við tilteknar aðstæður. Í þessari yfirþjóðlegu stofnun geta tvær aðrar þjóðir, Noregur og Liechtenstein, myndað meiri hluta gegn Íslandi. Á sínum tíma töldu menn að það mundi aldrei gerast, en við höfum upplifað það að forstjóri ESA tók mjög harða afstöðu gegn þeim ráðstöfunum sem Ísland greip til árið 2008 og við, a.m.k. tveir ráðherrar sem voru í þeirri ríkisstjórn, lentum í hörðum deilum við þann ágæta mann á ráðherrafundi í EFTA út af aðgerðum okkar. Erum við þá á gráu svæði?

Veltum fyrir okkur atburðarás. Það verður neyðarástand. Hver er það sem getur lýst því yfir? Ráðherraráð Evrópusambandsins. Og Skúli Magnússon slær því föstu að það sé einungis ráðherraráð ESB sem geti skilgreint neyðarástand. Hann segir, með leyfi forseta: „… án þess að gert sé ráð fyrir þátttöku eða samráði þessara ríkja.“

Með öðrum orðum er það ESB sem ræður. Það gerist þannig að eftirlitsstofnun innan ESB tekur ákvörðun um að eitthvað þurfi að gera. Haldinn er formlegur samráðsfundur með ESA þar sem formleg tilmæli eru afhent. ESA hefur síðan samband við innlent fjármálaeftirlit, þ.e. á Íslandi, sem aftur grípur til ráðstafana. Með öðrum orðum: Í neyðarástandi, þar sem hlutir gerast á einni nóttu, halda menn að það sé hægt að veita eitthvað viðnám gegn því? Að sjálfsögðu ekki.

Frumkvæðisrétturinn þarna er algjörlega innan Eftirlitsstofnunar ESB í praxís. Það er nú aldeilis framsal ef eitthvað er framsal.