145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Það eru örfá atriði sem ég vildi nefna þegar hér er komið sögu í umræðunni.

Í fyrsta lagi vildi ég nefna það vegna ummæla hv. þingmanns um fyrri ákvarðanir sem telja má að hafi falið í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra EFTA-stofnana að þá eru dæmin um slíkra ákvarðanir af hálfu Alþingis færri en menn almennt tala um í opinberri umræðu. Ég held að ég geti leyft mér að segja að slíkar ákvarðanir af hálfu Alþingis séu nær því að vera fimm en tíu og ef frá er talin upprunalegi EES-samningurinn og Schengen-samkomulagið er um að ræða mjög afmarkað framsal á mjög takmörkuðum sviðum. Þá er ég með í huga dæmin í fyrsta lagi um samkeppnismálin, í öðru lagi um loftferðaeftirlitið og í þriðja lagi um hið sameiginlega losunarkerfi Evrópusambandsins. Þetta eru þau dæmi sem ég man eftir í því sambandi. Ástæðan fyrir því að fleiri málefni eru oft tiltekin er auðvitað að við höfum verið með nokkur mál, sem hv. þingmaður nefnir reyndar í nefndaráliti sínu, sem hafa verið lengi í pípunum en hafa ekki enn þá sætt ákvörðunum Alþingis. Ég vildi bara taka þetta fram á þessu stigi vegna þess að þegar verið er að ræða um framsal í tengslum við EES-samninginn þá hefur mér oft þótt (Forseti hringir.) að menn geri meira úr því sem gert hefur verið á því sviði en efni standa til.