145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Allt er varðar ákvarðanir í neyðarástandi er auðvitað mjög líklegt að varða þannig ákvarðanir að þegar þær koma loksins til dómstóla geta þær verið búnar að hafa mikil áhrif. Jafnvel spíraláhrif á aðrar fjármálastofnanir og skapa kreppuástand í landinu. Það er mjög vont þegar óvissa er um slíkar ákvarðanir. En auðvitað standa vonir til þess að hægt verði að fá úrskurð dómstóla um gildi ákvarðana ef um er að ræða aðrar ákvarðanir sem ekki eru teknar í neyðarástandi. Þetta eru náttúrlega ekki allt neyðarákvarðanir. Það eru ýmsar aðrar ákvarðanir sem verða teknar í gegnum þetta og alveg borðleggjandi að látið verður á það reyna fyrir dómstólum. Og auðvitað eiga dómstólar um það síðasta orðið.

Þess vegna tek ég undir með hv. þingmanni að það er ekki skynsamlegt að hafa óvissu um réttarástand þar sem þjóðhagsvá og efnahagsvá getur komið upp. Þess vegna skil ég ekki í ríkisstjórninni í ljósi aðstæðna núna, það eru kosningar eftir nokkrar vikur, af hverju menn koma ekki einfaldlega með breytingarákvæði á stjórnarskránni. Við hefðum getað samþykkt þessa þingsályktunartillögu en haldið á henni stjórnskipulegum fyrirvara þannig að viðsemjendurnir vissu að við ætluðum að fara að gera þetta og gefið upp dagsetningu um hvenær taka ætti það fyrir hér bak kosningum.

Ég skil ekki þetta sjúsk gagnvart stjórnarskránni, ég skil ekki með hvaða rökum menn geta þá haldið því fram að breyta þurfi stjórnarskránni til að ganga í Evrópusambandið þegar búið er að umgangast hana með þessum hætti. Ég tek undir með hv. þingmanni, við höfum skrifað undir drengskaparheit að stjórnarskránni og erum auðvitað bundin af því. Ég sé bara hvergi ákvæði í stjórnarskránni sem leyfa svona framsal.