145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í umræðum hér í kvöld að þeir sem áttu sæti við borðið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þessu máli tala ekki einni röddu. Sumir nefndarmenn skrifuðu undir umsögnina með fyrirvara, þannig að það má ráða eitthvað af því hvaða sjónarmið búa þar að baki. Þarna var um að ræða umsögn til annarrar nefndar. Þess vegna vildi maður kannski forðast það að fara að stilla þessu upp í meiri hluta og minni hluta. Niðurstaðan varð sú að beggja sjónarmiðanna var getið í umsögninni, en málum ekki stillt upp með þeim hætti að það væri formlegur meiri hluti og formlegur minni hluti þegar kom til endanlegrar afgreiðslu þessarar umsagnar.

Ég minnist þess í öðrum tilvikum þar sem rætt hefur verið um framsal til Eftirlitsstofnunar EFTA, bæði á síðustu árum og svo man ég eins og aðrir sem þá sátu hér í þessum sal töluvert mikið eftir breytingunni á samkeppnislögunum 2005, að sá vafi sem er uppi í þessu máli hafi komið upp áður. Menn hafa velt fyrir sér hvort of langt væri gengið í einstökum tilvikum. Að því leyti er það ekki nýtt, en það er auðvitað rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að þetta er stórt mál, mikið að vöxtum og álitamálin þess vegna kannski áleitnari en í ýmsum öðrum tilvikum. Eins og fram kom í svörum mínum við andsvörum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan komst ég að (Forseti hringir.) þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti að þarna væri um að ræða framsal innan marka með tilliti til þeirra skilgreininga og viðmiða sem notuð hafa verið í slíkum tilvikum áður.