145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað gott fyrir hv. þingmann að honum líði vel inni í sjálfum sér með þetta, ef honum gerir það þá. Mér finnst hann ekki vera mjög afdráttarlaus eða sannfærandi þegar hann er að útskýra fyrir okkur að hann hafi lent þarna megin. En ég bara segi aftur: Þetta er einhver óskýrasta leiðsögn sem ég held að nokkurn tímann hafi verið boðið upp á fyrir okkur hv. þingmenn sem ekki sátu í annarri hvorri eða báðum nefndunum. Það er þetta sem við eigum að hafa í höndunum til að reyna að glöggva okkur betur á því, hafandi ekki tekið þátt í nefndarstarfinu, þessari bullandi óvissu.

Svo vil ég spyrja um yfirlýsinguna sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur til að verði send. Er tilvist hennar ekki sönnun þess hvað mönnum líður illa með þetta, að menn vilja semja sérstaka yfirlýsingu: Við munum samt gera það sem okkur sýnist ef á þarf að halda þótt við höfum framselt þetta vald? Mér finnst það sýna og sanna í hvers konar þrautavanda menn voru.

Kannski getur hv. þingmaður í leiðinni upplýst (Forseti hringir.) okkur um það hvað er búið að gera með þessa yfirlýsingu. Verður hún (Forseti hringir.) send eða er búið að senda hana? Eigum við að taka það gilt að hún hafi eitthvert vægi (Forseti hringir.) meðan við vitum ekkert um það hvort hún hefur einu sinni verið send úr landinu, hvað þá annað?