145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

viðbrögð við skýrslu um aðgerðir í vímuvarnamálum.

[10:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlega gaf heilbrigðisráðherra út skýrslu um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum og samfélaginu í heild. Þetta er skýrsla sem er afrakstur af þingsályktunartillögu sem Píratar lögðu fram á sínum tíma, meðal niðurstaðna starfshópsins sem skilar allur sameiginlega, þótt reyndar sé að vísu bókun frá ríkislögreglustjóra um nokkrar tillögur. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra eftir viðhorfum og viðbrögðum við þessari skýrslu þar sem þar er farið inn á tillögur sem varða hlutskipti innanríkisráðuneytisins. Þar er kannski helst að nefna tillögur eitt, tvö og þrjú en það eru tillögur um að varsla og meðferð neysluskammta sæti ekki fangelsisrefsingu samkvæmt lögum.

Nú er vitað að fólk fer ekki í fangelsi á Íslandi fyrir að vera með neysluskammta á sér, en það er samkvæmt lögreglusamþykkt en ekki samkvæmt lögum. Lögin hóta fangelsisrefsingu. Sú staðreynd hefur áhrif á rétt fólks sem er uppvíst að slíku broti. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra í sambandi við það og sömuleiðis um tillögu tvö, sem er um að sérstaða brota gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf verði afnumin úr sakaskrá. Það er þannig að öll brot fara á sakaskrá núna. Þetta er mjög hvimleitt fyrir fólk sem er sérstaklega að reyna að koma sér upp nýju lífi eftir neyslu, að vera enn þá með þetta á ferli sínum. Mig langar líka að heyra viðhorf hæstv. ráðherra um það. Síðast en ekki síst um afnám, að einungis mæling í blóði gildi um vímuefnaakstur en ekki einnig úr þvagi sem hefur valdið því að fólk sem er með niðurbrotsefni eða efni í þvagi (Forseti hringir.) en ekki í blóði er dæmt fyrir vímuefnaakstur að mínu mati að ósekju.