145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

viðbrögð við skýrslu um aðgerðir í vímuvarnamálum.

[10:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki orðið vör við neinar sérstakar mótbárur umfram það sem felst í sjálfu sér í bókun ríkislögreglustjóra. Ég hygg að menn hafi alveg eins átt von á því að skýrslan yrði á þennan veg. Að þessu máli komu fjölmargir aðilar sem gerst þekkja þessi mál, þarna voru aðilar úr heilbrigðiskerfinu, vímuefnasérfræðingur og slíkir aðilar. Ég hygg nú að í refsivörslukerfinu sé fólk sem er hluti af þjóðfélaginu og fylgist með þeirri umræðu og þróun sem þar fer fram. En ég hef ekki orðið sérstaklega vör við mótbárur.

Ég held að þetta sé einn af þeim brotaflokkum sem er ástæða til að fara í gegnum. Ég hef stundum sagt að það komi einhvern tímann að því að endurskoða þurfi hegningarlögin í heild sinni. Við erum stöðugt að líta á einstakar greinar og einstaka kafla sem eru að grunni til frá 1940 og hafa staðist vel tímans tönn, en auðvitað (Forseti hringir.) þolir allt góða gagnrýni og endurskoðun.