145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

ákvæði stjórnarskrár og framsal valds.

[10:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir fyrirspurnina. Sem starfandi utanríkisráðherra hef ég átt samtal við utanríkisráðherra um akkúrat þessa tillögu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá henni og líka á grundvelli þeirrar umræðu sem fór hér fram og þess sem hefur komið fram í þinginu og að sjálfsögðu þess sem lagt er hér fram og styðst við stjórnarflokkana, þá teljum við þetta rúmast innan þeirra heimilda sem við höfum.

Hver skaðinn er, sem hv. þingmaður spyr um, og hvort rétt sé að fresta þessu hugsanlega fram í næstu viku, þá hefur verið lögð áhersla á að þetta er hluti af því mikilvæga samstarfi sem við eigum í sem grundvallast á EES-samningnum. Það er afstaða þess ráðherra sem hefur flutt málið, að þetta rúmist innan þeirra heimilda. Menn hafa lagt mikla vinnu í þetta og vandað sig við hana.

Hins vegar er það önnur umræða, sem við eigum eftir að taka í þinginu, sem snýr að því hvað við viljum gera varðandi stjórnarskrána. Það liggja nú þegar fyrir þrjár tillögur varðandi breytingar þar á og áhugavert verður að sjá hvernig þingið mun taka á þeim og hvort menn geti hugsað sér að setja jafnvel inn fleiri breytingar í stjórnarskrána.