145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

vegaframkvæmdir.

[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að bera upp fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra varðandi vegaframkvæmdir í landinu. Á forsíðu Morgunblaðsins, með leyfi forseta, má sjá fyrirsögnina:

„Hluti vegakerfisins að hruni kominn.“

Í fréttinni segir:

„Ástand sumra vega í kringum fjölförnustu ferðamannastaði landsins er skelfilegt. Þetta er mat Ólafs Kr. Guðmundssonar, tæknistjóra EuroRAP á Íslandi.“

Hann telur að vegakerfið hérlendis sé í lamasessi. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra um þær framkvæmdir sem verið hafa á kjörtímabilinu sem eru sáralitlar, og hvort hún telji það ekki mjög ámælisvert að samgönguyfirvöld hér á landi hafi ekkert mætt hinum gífurlega ferðamannastraumi og því álagi og því umferðaróöryggi sem fylgir því að keyra um vonda vegi og einbreiðar brýr eins og hefur sýnt sig. Ferðamannageirinn skilar um 70 milljörðum í ríkiskassann, það kom fram í fréttum hjá framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, Helgu Árnadóttur, og að ríkið væri að skila núlli varðandi alla innviðauppbyggingu. Einbreiðar brýr á hringveginum eru um 39 í landinu og talið er að það taki um 18 ár, þó að farið væri eftir tillögu meiri hluta samgöngunefndar um að auka fé í þær framkvæmdir, að ná því niður og koma í veg fyrir að einbreiðar brýr væru í vegakerfi landsins.

Er þetta ásættanlegt? Telur ráðherra ekki að það þurfi að gera stórátak í vegamálum (Forseti hringir.) ef ekki á illa að fara? Er eina lausnin sem ráðherra hefur fram að færa að fara út í auknar einkaframkvæmdir?