145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

undirbúningur búvörusamninga.

[11:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhætt að segja strax að þær hugmyndir sem hv. þingmaður eða hennar flokkur hefur um landbúnaðinn og þær hugmyndir sem ég hef um íslenskan landbúnað eru engan veginn samrýmanlegar, ég verð því miður að segja það.

Það er verið að stíga í ákveðna átt í kerfisbreytingum með þessum samningum. Ef hv. þingmaður er að tala um enn þá stærri breytingar væri gaman að heyra þær af því að ég óttast að það sé ekki vegna þess að þingflokkurinn eða þingmaðurinn beri hag bænda fyrir brjósti. Ég ætla að mótmæla því að hv. þingmaður skuli standa hér og tala um að bændur séu fátækir, (BjÓ: Bera af mér sakir.) að bændur haldi áfram að vera fátækir. Það er með ólíkindum að þingmaðurinn skuli standa hér uppi og segja það.(Gripið fram í.)

Langflestir bændur á Íslandi búa mjög vel, hafa það býsna gott. Auðvitað er eins og í öllum öðrum stéttum inni á milli aðilar sem hafa það ekkert sérstaklega gott. Það er rétt að tekið er tillit til þess í samningnum að þeir sem búa fjærst þéttbýli munu samkvæmt ákveðnum reglum fá aukalega (Forseti hringir.) sérstakan styrk og greiðslur. Það er bara í samræmi við það sem er gert á mörgum stöðum.