145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[11:06]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á þessu kjörtímabili er búið að setja 55 milljarða til viðbótar inn í almannatryggingakerfið. Með því frumvarpi sem núna er í velferðarnefnd, sem ég vona svo sannarlega að menn komi út með sem fyrst, er verið að bæta við 33 milljörðum til viðbótar á næstu 10 árum, (Gripið fram í.) 5,3 milljörðum strax núna um áramótin. Þannig að ég vona svo sannarlega og ég treysti á að hv. þingmaður muni styðja þær breytingar.

Varðandi það hversu góðu búi menn skiluðu af sér þá vil ég bara benda á það að árið 2012 mældist sárafátækt hvað hæst hér á Íslandi. Við höfum nánast helmingað hana (Gripið fram í.) síðan þá. Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum hafa aldrei verið meiri. Við höfum nýtt þá fjármuni inn í velferðarkerfið.

Ég vona svo sannarlega, og ítreka það hér, að við getum náð saman um breytingar á bótakerfi öryrkja því að það er einkar mikilvægt eins og við náðum að gera varðandi mjög mikilvægar breytingar til hagsbóta fyrir þá sem minnst hafa á húsnæðismarkaðnum.