145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki átt beina aðild að þessu máli sem nú er hér til umfjöllunar en ég hef auðvitað fylgst með því í gegnum okkar fulltrúa, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, í utanríkismálanefnd og eins veit ég að það er mikill þrýstingur frá bæði Liechtenstein og Noregi að við ljúkum þessu máli. Ég velti fyrir mér hverra hagsmuna við erum að gæta, herra forseti, með því að fara í atkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti um þetta mál þegar Björg Thorarensen, helsti sérfræðingur á sviði stjórnskipunar, telur að ekki sé hægt að ganga svo langt í valdaframsali á grundvelli óbreyttrar stjórnarskrár. Ég held að það sé mikilvægt núna, þegar við mótmælum því að hér eigi að fara að ganga á svig við stjórnarskrána með atkvæðagreiðslu á Alþingi, að við fáum skýrt fram, herra forseti, hvaða hagsmuni Alþingi Íslendinga er að verja með þeirri atkvæðagreiðslu.