145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Heimspekingurinn Róbert H. Haraldsson gerði tilraun á því á sínum tíma og birti um það ritgerð hversu lengi og oft væri hægt að nota reiðhjólið sem samgöngutæki á höfuðborgarsvæðinu. Á tveggja ára tímabili komst hann að þeirri niðurstöðu að það voru einungis tveir dagar sem hann gat ekki notað hjólið. Við eigum að gera miklu meira af því sem samfélag horfa á það, og ég er mjög ánægður með að á höfuðborgarsvæðinu hafi reiðhjólastígar verið lagðir, það hefur verið bætt verulega í í þeim efnum. Það er gríðarlega jákvætt. Mér finnst mikilvægt að við ræðum þann samgöngumáta. Fyrir mörgum árum var tekin sú ákvörðun í Gautaborg, að ég held, að ryðja alltaf snjóinn af öllum reiðhjólastígum fyrst, þannig að fólk gæti notað reiðhjólið sem samgöngutæki allan ársins hring. Því miður hafa borgaryfirvöld í Reykjavík ekki staðið sig nógu vel í þeim efnum, sérstaklega kannski síðasta vetur þar sem snjór var á reiðhjólastígum lengi vetrar. Ég veit þetta vegna þess að ég nota reiðhjólið til að komast til vinnu næstum því allan ársins hring.

Ég vil líka segja í þessu samhengi að þegar ég byrjaði að grúska við samgöngumálin fyrir næstum því tíu árum sem aðstoðarmaður ráðherra í samgönguráðuneytinu, þá var verið að tala um Sundabrautina sem mögulega næstu stóru framkvæmdina á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hefur ekkert gerst. Þar þurfa menn að taka sig á og setja alvöruáætlanir í gang og fjármagn í það verkefni. Því miður hefur núverandi þingmeirihluta og ríkisstjórn verið það ofviða að klára eina samgönguáætlun á þessu kjörtímabili. Það verkefni hefur bara verið of stórt til að þessi meiri hluti réði við það. Ef menn fara ofan í ástæður þess geta menn svo sem komist að ýmsum niðurstöðum en samstarfið eða starfið í samgöngunefnd í þinginu er eitthvað sem ég vil sérstaklega nefna í þessu samhengi. Ég held að (Forseti hringir.) hvergi í öðrum nefndum hafi fundum verið jafn oft frestað með litlum fyrirvara og í þeirri nefnd.