145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:07]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir þetta mikilvæga mál, samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það sem er lykilatriði og inntak málshefjanda er að fólk komist áfallalaust á milli staða. Svo er það verkefni okkar og borgaryfirvalda að sjá til þess að það gangi sem best.

Það hefur verið rætt um nokkrar framkvæmdir og margt sem gerir að verkum að umferð á höfuðborgarsvæðinu gengur illa. Ég get nefnt nokkra flöskuhálsa í viðbót eins og Lönguhlíð, búið að nefna Bústaðaveg og svo er Ártúnsbrekkan. Það hefur verið rætt um nokkra hluti sem við getum gert til að draga úr umferðarálaginu en það eru fleiri leiðir sem hægt er að fara til að draga úr umferðarálagi. Mig langar að segja frá fundi sem umhverfis- og samgöngunefnd átti með sendifulltrúum frá Strassborg í Frakklandi þegar þeir komu hingað til lands í vor eða sumar til að kynna sér samgöngur og fleira í Reykjavík. Þeir hafa náð góðum árangri við að draga úr notkun einkabílsins og nota bæði hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir. Þeir eru búnir að auka mikið hlutfall gangandi vegfarenda og hjólandi með alls konar hvatningaraðferðum og við erum að reyna hér líka með hjólastígum og fleiru sem mér finnst mjög gott. En það er sérstakt átak hjá þeim til að það verði sem fæstir sem keyri einir í bíl, eins konar deilihagkerfi fyrir einkabíla. Hugsanlega er þetta eitthvað sem við getum hvatt til og reynt að horfa meira til. Mitt innlegg í þessa umræðu er að við leitum ekki bara þessara hefðbundnari dýru leiða heldur reynum líka að læra af öðrum og finna óhefðbundnar leiðir til að draga úr umferðarteppum og umferðarálagi.