145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:09]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á þakka málshefjanda fyrir þessa gríðarlega mikilvægu og stóru umræðu, sem er samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það er af miklu að taka og ég held að hv. þingmenn hafi reifað flest allt sem hægt er, allt frá því að tala um almenningssamgöngur yfir í að vera ekki einn í einkabílnum heldur deila honum. Það sem mig langar að taka fyrir eru gangandi vegfarendur, þá sérstaklega gangandi vegfarendur á veturna. Margt fólk veigrar sér við að fara út úr húsi vegna þess að götur Reykjavíkurborgar eða Kópavogs eða á stórhöfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið ruddar. Það er þannig að gamalt fólk sérstaklega sem býr jafnvel eitt og þarf að komast út í búð kemst hreinlega ekkert nema það fari í leigubíl eða noti bíl, einfaldlega af því að það er ekki búið að ryðja, það er ekki búið að salta, það er ekki búið að ryðja gangstéttir þannig að það geti tekið strætó. Við erum að tala um frekar stóran hóp fólks sem mundi vilja ganga en það er ekki hægt. En það er alveg hægt og við þurfum ekki endalaust að finna hjólið upp aftur því að við Íslendingar erum svolítið gjörn á að hugsa í dýrum lausnum. Víða í Bandaríkjunum og Kanada þar sem er snjóþungt ber hver og einn ábyrgð á sinni innkeyrslu og götu. Þannig er hægt að sjá til þess í sameiningu að það sé rutt og að allir göngustígar séu færir. Gangandi vegfarendur eru líka hluti af samgöngukerfi okkar. Það að sumt fólk veigri sér við að fara út svo að mánuðum skipti, eins og í vetur þegar var mjög snjóþungt, á ekki að gerast.

Við þurfum að fara hugsa um það hvort við þurfum að taka upp einhvers konar kerfi, deilikerfi, taka höndum saman um að ryðja snjó, sanda og salta. Ef við gerum þetta saman er það miklu auðveldara.