145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst verð ég að koma inn á það sem er kannski grunnurinn að vandanum í samgöngumálum dagsins í dag sem er að þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að setja allt of lítið til samgöngumála. Hæstv. ráðherra hefur beinlínis sagt það í svari til mín hér fyrr á kjörtímabilinu að það hafi verið ákvörðun að forgangsraða með þeim hætti að setja minna til samgöngumála. Framlög til samgöngumála á þessu kjörtímabili eru sögulega þau lægstu sem um getur. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa þau verið 1,1–1,3% en voru 2,5% árið 2008 svo að dæmi séu tekin. Þar liggur vandinn. Síðan kemur samgönguáætlun hingað inn frá hæstv. ráðherra. Þar er gert ráð fyrir 7 milljörðum í viðhald og úrbætur vega í heildina fyrir landið allt. Það þýðir að menn ná ekki einu sinni að viðhalda fyrri fjárfestingum. Kerfið mun halda áfram að grotna niður.

Nú hefur meiri hluti samgöngunefndar tekið ákvörðun um að bæta milljarði við þetta en það dugar ekki heldur. Vegagerðin hefur sagt okkur að það þurfi 8–9 milljarða til þess eins að halda í horfinu og viðhalda fyrri fjárfestingum. Ef menn ætla síðan að ná að gera eitthvað meira, stíga næstu skref inn í framtíðina, þurfa þetta að vera 11 milljarðar á ári. Þetta eru tölurnar sem við horfum fram á.

Þetta er stór hlið í umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þar er farið mjög vel yfir þann vanda sem þessi lágu framlög til viðhalds skapa, sérstaklega hvað varðar öryggi innan borgarmarkanna.

Þá vil ég líka nefna að mér hefur fundist til mikillar fyrirmyndar það samstarf sem náðst hefur meðal allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um hina svokölluðu borgarlínu. Það er verkefni sem ég tel að stjórnvöld eigi að koma miklu skýrar að og með (Forseti hringir.) miklu ákveðnari hætti. Eins og ágætlega er dregið fram í umsögn þeirra um samgönguáætlun getur það (Forseti hringir.) sparað okkur töluverða fjármuni í samgöngumannvirkjum til lengri tíma ef myndarlega verður byggt upp, borgarlína, hraðvagnar og annað slíkt, hér innan höfuðborgarsvæðisins á sviði almenningssamgangna.