145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt og mikilvægt mál sem hv. málshefjandi bryddar hér upp á. Ég þakka fyrir þá umræðu.

Mig langar til að drepa á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi er ein grunnhugsun sem ég held að sé mjög mikilvæg þegar rætt er um samgöngur í þéttbýli almennt, þ.e. jafnræði samgöngumáta, að tryggja að fólk hafi raunverulegt val um hvaða samgöngumáti er valinn hverju sinni, hvort valið er að ganga, hjóla, nota almenningssamgöngur eða einkabíl. Tilhneigingin hefur verið sú með þróun höfuðborgarsvæðisins á Íslandi að uppbygging samgöngumannvirkja hefur fyrst og fremst verið í þágu einkabílsins. Það sem við erum að vinna á núna er að draga fram þá möguleika í þróun samgöngukerfisins sem þjónar fleiri gerðum samgangna.

Það er mikilvægt á landsvísu að gerð sé sérstök áætlun um eflingu almenningssamgangna sem kemur auðvitað höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst við þó að það sé verkefni landsins alls að unnin verði sérstök hjólreiðaáætlun sem hluti samgönguáætlunar, ekki bara jarðgangaáætlun eins og við erum vön að horfa til, heldur séum við í raun með áætlanir í öllum þessum málaflokkum.

Ég vil taka undir það sem sagt hefur verið um Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og svæðisskipulagsáætlanir þeirra. Þær eru gríðarlega mikilvægar, ekki síst vegna þess að það kemur í veg fyrir þá tilhneigingu þingsins að bregðast við áætlunum Reykjavíkurborgar eftir því hverjir eru þar í meiri hluta á hverjum tíma og að við horfumst í augu við að það eru sameiginlegir hagsmunir höfuðborgarsvæðisins alls að þróa borgarlínu og öfluga almenningssamgangnavalkosti (Forseti hringir.) á höfuðborgarsvæðinu með hraðvögnum eða léttlestarkerfi. Ég vil hvetja til þess að farið verði í að styðja það með beinum hætti enda höfum við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar lagt það sérstaklega til með minnihlutaáliti við samgönguáætlun sem verður vonandi rædd hér áður en við ljúkum störfum fyrir kosningar.