145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé vanþörf á því að hér séu rædd [Kliður í þingsal.] — ef hægt væri að hafa einn fund í salnum mundi það sennilega hjálpa — samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og þótt fyrr hefði verið. Ég held að þingmenn Reykjavíkur hafi oft saknað þess í gegnum tíðina, eins og ég gat um í ræðu minni hér áðan, hversu mikil áhersla, sem þó er nauðsynleg, er ávallt lögð á samgönguframkvæmdir út um land. Það liggur alveg fyrir að það sama hlýtur að gilda í höfuðborginni.

Ég vil aftur leggja áherslu á þetta. Við megum ekki stilla fararskjótum og leiðum manna hverri á móti annarri. Það er vel hægt að vera hér með almennilegt samgöngukerfi, vel hægt að tryggja för gangandi vegfarenda og vel hægt að tryggja að þeir sem ferðast með einkabílum komist á milli staða. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið að það sé gert með öruggum hætti og að fólk sem þarf að komast leiðar sinnar í borginni komist hjá slysum eins og hægt er. Það er náttúrlega ekki hægt að sætta sig við það hér frekar en annars staðar að slysum fjölgi, það er alls ekki hægt að sætta sig við það.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði um samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk, þ.e. að fólk er alls konar, það er alls konar fólk sem býr í borginni og alls konar fólk sem þarf að komast ferða sinna. Það er okkar hlutverk að tryggja að það sé hægt. Þeir sem búa langt í burtu frá miðbæ Reykjavíkur en sækja vinnu þar þurfa að komast í vinnu á morgnana, það þarf að tryggja að það sé hægt.

Ég held að það sé lykilatriði. Ég trúi ekki öðru, held reyndar að menn séu sammála um það, en að þessir hlutir eigi að vinna saman.

Ég vil að lokum, um leið og ég þakka þessa þörfu umræðu, svara því sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir sagði hér áðan varðandi gatnamótin við Hafnarfjörð. Það stendur til að bjóða þau út á þessu ári, gríðarlega mikilvæg framkvæmd alveg rétt hjá hv. þingmanni, stórhættuleg gatnamót og mjög gott dæmi um að mislæg gatnamót eru ekki út í loftið.